Hlutabréfaverð auðlindafélagsins Amaroq Minerals, sem er skráð á First North-markaðinn, hefur hækkað um 14% í 34 milljóna króna viðskiptum í morgun. Gengi félagsins stendur nú í 80 krónum á hlut og hefur ekki verið hærra frá skráningu á íslenska markaðinn í byrjun nóvembermánaðar.

Amaroq birti í morgun niðurstöður rannsókna á Nalunaq þróunarsvæðinu á Suður-Grænlandi sem gefa til kynna að svæðið sé mun stærra og ríkara af gulli en áður var talið.

Á aðalmarkaði Kauphallarinnar hefur Origo hækkað um meira en 7% í ríflega 150 milljóna króna viðskiptum. Gegni Origo stendur nú í 90,5 krónum á hlut en til samanburðar hefur dagslokagengi félagsins aldrei farið yfir 87 krónur.

Í dag er réttindaleysisdagur vegna 24 milljarða króna útgreiðslu til hluthafa í formi lækkunar hlutafjár vegna sölunnar á eignarhlut félagsins í Tempo. Það felur í sér að hluthafar sem halda enn á bréfum eða selja bréf í dag eða síðar fá greiddar krónur til samræmis við hlutafjárlækkunina.

Nánar tiltekið var gærdagurinn því síðasti viðskiptadagur með bréf Origo fyrir hluthafa að selja fyrir framkvæmd lækkunarinnar.