Stjórn upplýsingatæknifyrirtækisins Origo mun leggja til að greiddir verði út 24 milljarðar króna með lækkun hlutafjár í kjölfar 28 milljarða króna sölunnar á 40% hlut félagsins í Tempo. Origo hefur boðað til rafræns hluthafafundar þann 1. desember næstkomandi. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Í byrjun október náði Origo samkomulagi við tæknifjárfestingarsjóðinn Diversis Capital um sölu á 40% hlut félagsins í hlutdeildarfélaginu Tempo fyrir 195 milljónir dala, eða sem nemur ríflega 28 milljörðum króna, sem Origo fékk greitt að fullu þann 24. október. Áætlaður söluhagnaður var um 156 milljónir dala, eða um 22,8 milljarðar á gengi dagsins.

Í greinargerð með tillögu stjórnar segir að í tengslum við fyrirhugaða útgreiðslu með lækkun hlutafjár gerir stjórn félagsins ráð fyrir að á bilinu 24-26 milljarðar af hinu 27,5 milljarða króna söluandvirði verði greiddir út til hluthafa.

„Eftir söluna á Tempo er lausafjárstaða félagsins afar sterk og eiginfjárhlutfall um 83,96%. Það er mat stjórnar að rétt sé að færa hlutaféð niður og koma stærstum hlut þessa söluandvirðis til hluthafa félagsins,“ segir í greinargerðinni.

„Fjárhagsstaða félagsins verður eftir sem áður afar sterk og eiginfjárhlutfall enn hátt eða tæplega 56,72% verði tillaga stjórnar samþykkt. Er það mat stjórnar að eftir útgreiðslu lækkunarfjárhæðarinnar verði félagið mjög vel sett til þess að nýta og fjármagna þau vaxta- og verðmætasköpunartækifæri sem blasa við stjórnendum félagsins.“

Styrking á tækniumhverfi, hraðari þróun og nýr sjóður

Origo hyggst verja 1-3 milljörðum króna í hraðari styrkingu á tækniumhverfi félagsins, hraðari þróun á völdum hugbúnaðarvörum félagsins og mögulegri styrkingu á vöruúrvali félagsins á skilgreindum kjarnasviðum þess í hugbúnaði. Gert er ráð fyrir að stjórnin upplýsi um þær ráðstafanir í aðdraganda aðalfundar sem haldinn verður 9. mars 2023.

Þá verði 500 milljónir króna nýttar til stofnunar starfsþróunar- og menntasjóðs „þar sem ávöxtun verður nýtt til endurmenntunar núverandi og tilvonandi starfsmanna á sviði hugbúnaðarþróunar og nýsköpunar“. Stofnun sjóðsins verður kynnt nánar á hluthafafundinum í næsta mánuði.