Alphabet, móðurfélag Google, tilkynnti í gærkvöldi um að það hefði ákveðið að greiða út arð í fyrsta sinn en netrisinn hefur hingað til einungis stuðst við endurkaup til að skila fjármunum til fjárfesta. Arðgreiðslan nemur um 2,5 milljörðum dala en félagið hyggst einnig ráðast í endurkaup á hlutabréfum félagsins upp á 70 milljarða dala.

Með þessari ráðstöfun fylgir Alphabet í fótspor Meta sem ákvað fyrr í ár að greiða út arð til hluthafa.

Í umfjöllun Financial Times segir að arðgreiðslur fyrirtækjanna tveggja gefi til kynna að stóru bandarísku tæknifyrirtækin séu tilbúin að ráðstafa umfangsmiklu handbæru fé sínu til hluthafa í formi arðgreiðslna fremur en að halda eyrnamerkja fjármunina fyrir fjárfestingar og yfirtökur.

Hlutabréfaverð Alphabet hefur hækkað um meira en 10% í fyrstu viðskiptum í dag. Markaðsvirði félagsins hefur því hækkað um meira en 200 milljarða dala það sem af er degi og er nú komið yfir 2 þúsund milljarða dala.

Í umfjöllun FT segir að fjárfestar hafi tekið vel í áform félagsins um útgreiðslur til hluthafa auk þess að ársfjórðungsuppgjör félagsins hefði sýnt sterkan vöxt í helstu rekstrareiningum þess.

Tekjur Alphabet á fyrsta ársfjórðungi jukust um 15% milli ára og námu 80,5 milljörðum dala. Greiningaraðilar áttu von á að tekjur félagsins yrðu nær 79 milljörðum dala.

Þá jókst hagnaður Alphabet um 57% frá sama tímabili í fyrra og nam 23,7 milljörðum dala en greiningaraðilar áttu von á að félagið hefði hagnast um 19,1 milljarð dala á fjórðungnum.