Hlutabréfaverð Snap Inc., móðurfélags samfélagsmiðilsins Snapchat, hefur lækkað um 30% í viðskiptum fyrir opnun markaða í dag. Í uppgjöri félagsins fyrir annan ársfjórðung, sem birt var í gær, kom fram að söluvöxtur þess hefur ekki verið minni frá því að það var skráð á markað árið 2017. WSJ greinir frá.

Tekjur Snap á öðrum fjórðungi námu 1,1 milljarði dala sem er 11% aukning frá sama tímabili í fyrra. Snap sagði að sala á yfirstandandi fjórðungi væri enn sem komið er svipað mikil og á sama tíma í fyrra. Aðstæður í atvinnulífinu hafi leitt til þess að fyrirtæki hafa dregið úr auglýsingaútgjöldum.

Snap tapaði 422 milljónum dala, eða sem nemur 58 milljörðum króna, á öðrum fjórðungi. Félagið segist ætla að draga verulega úr nýráðningum til að bregðast við breyttu rekstrarumhverfi.