Hlutabréf í bandarísku flugfélögunum American Airlines og United Airlines hafa hækkað talsvert í fyrstu viðskiptum. Bréf United hafa hækkað um 24% þegar þetta er skrifað og bréf American um 17%. Bréf United hafa ekki verið hærri síðan í júní á þessu ári og bréf American hafa ekki verið hærri síðan í júní. Auk þeirra hafa hlutabréf Southwest Airlines hækkað um 16%.

Hlutabréf flugvélaframleiðandans Boeing hafa hækkað um 12% í fyrstu viðskiptum og hafa þau ekki verið hærri síðan í ágúst á þessu ári. Dow Jones vísitalan hefur hækkað um tæplega fimm prósent og S&P 500 vísitalan um rúmlega þrjú prósent. Báðar vísitölunnar nálgast á ný hæstu hæðar en þær hafa hækkað talsvert undanfarna daga.

Ætla má að jákvæðar fréttir um bóluefni Pfizer og BioNTech hafi mikil áhrif á markaði en hlutabréf BioNTech hafa hækkað um fimmtung við opnun markaða og bréf Pfizer um sjö prósent. Bréf General Electic hafa hækkað um tíu prósent og bréf Tesla hafa hækkað um nær fjögur prósent.

Ekki allir njóta góðs af aukinni bjartsýni

Aukin bjartsýni á virkni bóluefnis kemur ekki öllum fyrirtækjum vel, þrátt fyrir að hlutabréf hafi hækkað almennt. Einhverjir  hafa hagnast á hertum sóttvarnarreglum og má þar nefna félög líkt og Netflix og Zoom. Það sem af er degi hafa hlutabréf Zoom lækkað um hartnær 17% og bréf Netflix um tæplega átta prósent.

Auk þeirra hafa hlutabréf fyrirtækisins Peloton, sem framleiðir spinning hjól, lækkað um ríflega fimmtung. Markaðsvirði félagsins er tæplega 29 milljarðar dollara.