Í ramma­grein Peninga­mála Seðla­banka Ís­lands er farið yfir ýmsa þætti sem geta haft á hrif á hag­vaxtar- og verð­bólgu­horfur hér á landi. Meðal þeirra eru á­hrif jarð­hræringa á Reykja­nes­skaga sem og á­hrif ný­legra að­gerða í ríkis­fjár­málum á grunn­spá bankans.

Ríkis­stjórnin birti yfir­lýsingu um að­gerðir í ríkis­fjár­málum sem ætlað var að styðja við ný­undir­ritaða kjara­samninga á al­mennum vinnu­markaði í mars.

Þessar að­gerðir voru síðan út­færðar í nýrri fjár­mála­á­ætlun um miðjan apríl en megin­þorri að­gerðanna lýtur að auknum til­færslum til heimila. Í ár munar mest um 6 milljarða króna vaxta­stuðning sem einungis er greiddur á yfir­standandi ári.

Á kjara­samnings­tímanum í heild vega hins vegar þyngst hækkun barna­bóta og lenging fæðingar­or­lofs sem á­ætlað er að kosti ríkis­sjóð sam­tals um tæp­lega 31 milljarð króna yfir samnings­tímann 2024-2027 eða sem sam­svarar 7,7 milljarða króna á ári.

Við bætast auknar hús­næðis­bætur til leigj­enda upp á 8,8 milljarða króna yfir samnings­tímann. Sam­tals er því gert ráð fyrir að til­færslu­út­gjöld aukist um 45,7 milljarða yfir þetta fjögurra ára tíma­bil.

Við bætist 13,8 milljarða aukning sam­neyslu­út­gjalda sem að lang­mestu leyti tengist á­kvörðun um gjald­frjálsar skóla­mál­tíðir í grunn­skólum.

Að lokum eru stofn­fram­lög til stuðnings við kaup á í­búðar­hús­næði aukin um sam­tals 9,7 milljarða á árunum 2026 og 2027. Sam­tals nemur kostnaður ríkis­sjóðs vegna þessara að­gerða 69,1 milljarður króna á þessu fjögurra ára tíma­bili eða sem sam­svarar 1,6% af lands­fram­leiðslu ársins 2023.

Sam­kvæmt Peninga­málum mun af­koma ríkis­sjóðs versna að öðru ó­breyttu um 12,4 milljarða í ár vegna að­gerðanna sem sam­svarar 0,3% af lands­fram­leiðslu síðasta árs.

Á­hrifin eru minni á næsta ári en þá bætast við ný út­gjöld upp á 1,6 milljarða (munurinn á 14 milljarða út­gjöldum árið 2025 og 12,4 milljarða út­gjöldum árið 2024).

„Á næstu tveimur árum þar á eftir bætast við 9 milljarða út­gjöld til við­bótar og því er af­koma ríkis­sjóðs að öðru ó­breyttu orðin 23 milljarða lakari árið 2027 en hún hefði ella verið sem sam­svarar ríf­lega 0,5% af lands­fram­leiðslu síðasta árs,” segir í Peninga­málum.

Seðal­banki Ís­lands bendir á að eins og að­gerðirnar eru út­færðar er ljóst að þær munu fyrst og fremst gagnast barna­fjöl­skyldum með lægri tekjur. Auknar til­færslur til þeirra í formi hærri bóta og gjald­frjálsra skóla­mál­tíða auka ráð­stöfunar­tekjur þeirra sem að öðru ó­breyttu eykur eftir­spurn þeirra eftir vörum og þjónustu.

Að­gerðirnar munu valda því að einka­neysla eykst um ríf­lega 0,1 prósentu meira en ella í ár og um ríf­lega 0,3 prósentum meira á næsta ári en síðan taka á­hrifin smám saman að fjara út. Árið 2027 er einka­neysla orðin tæp­lega 0,6% meiri en hún hefði ella verið.

„Hraðari efna­hags­um­svif gera það einnig að verkum að fjár­festing vex hraðar en ella en á móti vega ruðnings­á­hrif hærri vaxta (sjá hér á eftir). Á­hrifin á fjár­muna­myndun at­vinnu­veganna í ár yrðu til­tölu­lega lítil en á næstu árum vex hún heldur hægar en hún hefði ella gert og er orðin tæp­lega 0,4% minni en ella árið 2027,” segir í Peninga­málum.

„Ruðnings­á­hrif hærri vaxta draga úr á­hrifum að­gerðanna á hag­vöxt og við bætist að hluti að­gerðanna „lekur“ út úr þjóðar­bú­skapnum þar sem hluti aukinnar eftir­spurnar beinist að inn­fluttri vöru og þjónustu. Það endur­speglast í lakari við­skipta­jöfnuði á spá­tímanum. Á­hrifin á hag­vöxt í ár eru lítil þar sem hluti ársins er þegar liðinn þegar að­gerðirnar koma til fram­kvæmda en á næsta ári er hann 0,1 prósentu meiri en ella. Lands­fram­leiðslan er því orðin um 0,12% meiri en ella árið 2027 og á­hrifin því nokkru minni en á þjóðar­út­gjöld sem eru orðin tæp­lega 0,4% meiri árið 2027.”

Hraðari vöxtur efna­hags­um­svifa eykur í raun á inn­lenda fram­leiðslu­þætti og eykur þannig verð­bólgu­þrýsting sam­kvæmt Seðla­banka Ís­lands sem bendir þó á að á­hrifin eru lítil, sér­stak­lega í ár, þar sem væntingar um hærri vexti leiða strax til hækkunar á gengi krónunnar sem vegur á móti eftir­spurnar­á­hrifum að­gerðanna á verð­bólgu.