Þór­dís Kol­brún R. Gylfa­dóttir, fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, segir það mikinn mis­skilning að hún eða ís­lenska ríkið sé að „sölsa undir sig“ eyjar landsins.

Mikið hefur verið gert úr kröfu ó­byggða­nefndar um Eyjar og sker en Þór­dís segir um­ræðuna á villu­götum.

„Fréttir síðustu daga benda til þess að ég hafi per­sónu­lega á­kveðið að sölsa undir mig eyjar á Breiða­firði, Vest­manna­eyjar, Gríms­ey og ef til vill flestar eyjar í kringum Ís­land. Ég skil að mörgum hafi brugðið og því er rétt að taka af allan vafa strax: Hvorki ég né ríkið höfum það að mark­miði að sölsa undir okkur eyjar landsins sem eru í einka­eigu. Kjarni málsins er að verið er að fram­fylgja skrefi 17 af 17 sam­kvæmt lögum frá árinu 1998 sem þvert á móti snýst um að eyða ó­vissu um eignar­réttindi lands,” skrifar Þór­dís í grein á Vísi.

Hún segir að sem betur fer séu ríkar kröfur til jafn­ræðis og hlut­lægni í öllum að­gerðum ríkisins. „Það er til heilla fyrir okkur öll og hefur þau mark­mið að fylgja lögum og stjórnar­skrá lýð­veldisins Ís­lands.“

Kröfunum sem hefur verið lýst eru í sam­ræmi við máls­með­ferð í þjóð­lendu­lögum en hag­aðilar geta í fram­haldinu lýst gagn­kröfum sínum. Gagna­öflun fer fram hjá ó­byggða­nefnd, ríkinu og gagn­aðilum og er engin endan­leg niður­staða í málinu.

„Að fara fram hjá máls­með­ferð þjóð­lendu­laga í eina svæðinu, svo­kölluðu svæði 12, sem eftir er í fram­kvæmd byggða á aldar­fjórðungs­gömlum lögum færi þá gegn jafn­ræði og hlut­lægni, sér í lagi gagn­vart hinum 16 svæðunum sem tekin hafa verið fyrir af ó­byggða­nefnd allt frá alda­mótum.”

Þór­dís segir að „Svona hefur þetta alltaf verið“ sé svar sem hún hefur al­mennt ekki tekið gilt þegar „kerfið“ gefur þau svör í hinum ýmsu mál­efnum bæði í hennar ráð­herra­tíð og er hún var að­stoðar­maður ráð­herra.

„En í til­felli þar sem að­eins eitt svæði er eftir af þeim 17 sem ó­byggða­nefnd hefur tekið fyrir, er ekki hægt, með til­liti til jafn­ræðis og hlut­lægni, að beita annarri að­ferða­fræði en aðrir hafa þurft að þola í aldar­fjórðung. Ég hef mínar skoðanir á þessum lögum og fram­kvæmdinni á þeim. Til dæmis tel ég að ríkið eigi enga hags­muni af því hvar mörk þjóð­lendna eru heldur ein­göngu að ó­vissu um mörk sé eytt. Af því leiðir að ég tel heldur ekki þörf á því að ríkið beri úr­lausn ó­byggða­nefndar, sem ekki eru í sam­ræmi við kröfu­gerð ríkisins, sí­fellt undir dóm­stóla. Ég í­treka að einka­aðilar eiga þann ský­lausa rétt að fá úr­lausn hjá dóm­stólum ef þeir una ekki við niður­stöðu ó­byggða­nefndar án þess að bera þann kostnað,” skrifar Þór­dís.

Hún bendir á að ráð­herrar sem eru hvoru tveggja í senn, stjórn­mála­menn með hug­sjónir og fara með fram­kvæmda­vald sam­kvæmt stjórnar­skrá, geta ein­fald­lega ekki alltaf gert það sem þá langar til. „Sem betur fer búum við í þannig sam­fé­lagi. Þótt það geti reynt á þol­rif ráð­herra og borgara sömu­leiðis. Fara verður eftir leik­reglum, ekki geð­þótta sitjandi ráð­herra.“

„Talandi um leik­reglur. Þá var leik­reglum lítil­lega breytt árið 2020 þegar lögunum um þjóð­lendur var breytt. Þar var meðal annars lagt til að ó­byggða­nefnd yrði heimilt að hefja máls­með­ferð vegna land­svæða utan strand­lengju megin­landsins með á­skorun um að lýsa réttindum en síðan taki við hefð­bundin máls­með­ferð. Þannig gætu þeir aðilar sem í upp­hafi vekja at­hygli á réttindum sínum, ekki endi­lega þurft að sæta viða­meiri með­ferð. Skyn­sam­legra hefði verið að gera þessa heimild að skyldu en í með­förum málsins hjá alls­herjar- og mennta­mála­nefnd, undir for­mennsku Páls Magnús­sonar þá­verandi þing­manns og nú­verandi formanns bæjar­ráðs Vest­manna­eyja, var engin slík breyting lögð til. Fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neytið lagði til við ó­byggða­nefnd, í mars 2023, að farin yrði þessi leið á um­ræddu svæði 12. Ó­byggða­nefnd féllst ekki á sjónar­mið ráðu­neytisins í bréfi í apríl 2023 og tók á­kvörðun um að hin hefð­bundna máls­með­ferð skyldi eiga við. Það er mjög miður.”

Hægt er að lesa skrif Þór­dísar „Kona sölsar undir sig land“ í heild sinni hér.