Fyrstu tilraunir með orkuframleiðslu í geimnum til nota á jörðu niðri gætu farið fram á Íslandi samkvæmt nýjum samstarfssamningi sem íslenska loftslagsfyrirtækið Transition Labs hefur gert við breska fyrirtækið Space Solar.

Kjartan Örn Ólafsson, framkvæmdastjóri Transition Labs, sagði frá samstarfinu á fundi Orkuveitunnar í Hörpu nýverið, sem fram fór undir yfirskriftinni Hrein tækifæri – Straumhvörf í orkumálum.

Space Solar hefur hannað sólarorkuver sem staðsett verða á sporbaug um jörðu. Þar virkja þau geisla sólarinnar og miðla orkunni til jarðar með útvarpsbylgjum. Jarðstöðvar taka við bylgjunum og umbreyta þeim í rafmagn og skila grænni endurnýjanlegri orku inn í orkukerfin.

Geislar sólarinnar eru 13 sinnum öflugri fyrir utan lofthjúpinn en á jörðu niðri sem vegur upp á móti því orkutapi sem verður við flutning orkunnar til jarðar. Í tilkynningu segir að útvarpsbylgjurnar hafi ekki áhrif á lífríki jarðar en jarðstöðvarnar samanstandi af neti smárra loftneta sem hleypi vatni og sólarljósi í gegn.

Transition Labs mun gegna lykilhlutverki í undirbúningi að prófunum og uppsetningu á þessari nýju tækni auk þess að styðja Space Solar í viðskiptaþróun, stefnumótun og fjármögnun, að því er segir í tilkynningunni.

„Áhersla okkar hjá Transition Labs er að aðstoða loftslagsfrumkvöðla við að koma verkefnum sínum á legg; hratt og örugglega, og fjarlægja hindranir sem geta verið til staðar, með það að markmiði að skala þær upp svo fljótt sem mögulegt er til hagsbóta fyrir samfélag og umhverfið,” segir Kjartan Örn Ólafsson, framkvæmdastjóri Transition Labs.”