Knattspyrnuverslunin og heildsalinn Jói Útherji fagnaði 25 ára afmæli sínu í vikunni en verslunin var stofnuð af feðgunum Magnúsi V. Péturssyni og Valdimari P. Magnússyni árið 1999.

Viðskiptavinir verslunarinnar spanna breitt aldursbil og hefur fjölgað jafnt og þétt yfir árin. Í tilkynningu segir að með tímanum hafi myndast tryggur hópur viðskiptavina sem séu annars vegar iðkendur og hins vegar áhugamenn.

Allir eigi það þó sameiginlegt að deila brennandi áhuga fyrir íþróttinni og leiknum.

„Hugmyndin varð til rúmlega ári fyrr og í undirbúningnum var hugað að staðsetningu sem og auðvitað nafni og þá kom upp hugmyndin að láta þetta heita Jói útherji, en eins og margir þekkja þá gerði Ómar Ragnarsson lag um þennan gaur sem spilaði bæði með Val og KR. Haft var samband við Ómar og hann var hæstánægður með að búðin fengi þetta nafn sem síðan varð raunin,” segir Valdimar P. Magnússon, annar stofnanda Jóa Útherja.

Verslunin, sem er staðsett í Ármúla, hefur stækkað síðan þá og er nú meira en þrefalt stærri en hún var í upphafi. Í byrjun september 2019 var opnuð verslun í Bæjarhrauni 24 í Hafnarfirði. Verslunin var svo seld Grími Garðarssyni, fjárfesta og eiganda Bestseller á Íslandi, sumarið 2023.

„Hér koma ungir sem aldnir að kaupa alls konar fótboltavörur. Yngri kynslóðin er oftar en ekki að kaupa sér nýjustu takkaskóna sem átrúnaðargoðin í boltanum hafa nýlega frumsýnt en þeir eldri eru reglulega að kaupa sér nýju liðstreyjuna fyrir komandi tímabil í enska boltanum,“ segir Viðar Valsson verslunarstjóri Jóa Útherja.