Jón Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Össurar, tók á dögunum við sem stjórnarformaður hjá Seti ehf., eina rörframleiðanda landsins.

Í fréttatilkynningu Sets er bent á að Jón hafi á yngri árum verið í sumarvinnu hjá Steypuiðjunni á Selfossi, forvera Sets, við framleiðslu steinröra. Hann hafi þar lært „steypuhagfræðina, að tæma almennilega úr hornum sements-pokana því þar lá hagnaðurinn“.

Höfuðstöðvar og megin starfsemi fyrirtækisins er á Selfossi en Set starfrækir einnig framleiðslufyrirtæki í Þýskalandi og söluskrifstofu í Danmörku undir merkjum Set Pipes. Samanlögð velta félaganna var tæpir fimm milljarðar króna árið 2022 og er áætluð yfir sjö milljarðar á þessu ári. Hjá fyrirtækjunum starfa yfir 100 manns.

Pétur, Margrét Lára, Sigrún Helga og Örn í stjórnina

Auk Jóns taka þá koma þau Pétur Guðjónsson, Margrét Lára Friðriksdóttir, Sigrún Helga Einarsdóttir og Örn Einarsson inn í stjórnina en þau tvö síðastnefndu eru meðal hluthafa í Seti ehf. Forstjóri fyrirtækisins er Bersteinn Einarsson en hann hefur stýrt fjölskyldu fyrirtækinu í áratugi.

Um stjórnarmenn Sets:

Jón Sigurðsson, var ráðinn til Össurar sem forstjóri árið 1996 og starfaði þar í 26 ár, eða til ársins 2022. Starfsmannafjöldinn margfaldaðist á þessum árum frá 40 starfsmönnum í 4000 starfsmenn víðsvegar um heiminn. Veltan fór úr 400 milljónum í 90 milljarða króna. Áður en Jón réð sig til Össurar vann hann í New York sem viðskiptafulltrúi í Fastanefnd Íslands, var fjármálastjóri Álafoss, forstöðumaður aðþjóðasviðs Eimskips og verkfræðingur hjá Bang and Olufsen í Danmörku. Jón situr nú í fjölda stjórna.

Pétur Guðjónsson var einn af fyrstu starfsmönnum Marels. Árið 1985 fór hann til Kanada til að stofna fyrsta dótturfélag Marel. þ.e. sölu og þjónustuskrifstofu. Pétur var í yfirstjórn Marel samstæðunnar (Executive Vice President Commercial) og bar ábyrgð á sölu- og þjónustuskrifstofunum, svo og markaðs og þjónustumálunum. Pétur yfirgaf Marel 2020 eftir 36 ára starf og miðlar nú reynslu sinni með því að sitja í stjórnum nokkurra fyrirtækja.

Margrét Lára Friðriksdóttir hefur starfað hjá Össuri frá árinu 2000 og gegnt þar ýmsum störfum á sviði fjármála, fyrirtækjaþróunar og mannauðs. Hún hefur haldið utan um stefnumótun fyrirtækisins undanfarin 20 ár. Nú er hún framkvæmdastjóri stefnumótunar, mannauðs og sjálfbærni og er hluti af framkvæmdastjórn Össurar. Margrét situr einnig í stjórn Annata, HPP Solutions, Viðskiptaráðs Íslands og er í fjárfestingaráði VEX I.

Sigrún Helga Einarsdóttir hóf sinn starfsferil hjá Set ehf., fyrst við framleiðslustörf innan fyrirtækisins og síðar við ýmis störf á skrifstofu. Árið 2007 hóf hún störf hjá KPMG, við endurskoðun og uppgjör sveitarfélaga, stofnana og félaga til ársins 2018. Samhliða störfum sat hún í stjórn Festu lífeyrissjóðs á árunum 2006 til 2012 fyrir hönd SA og gegndi stöðu stjórnarformanns hluta tímans þar. Sigrún Helga starfar í dag á rekstrarsviði hjá Matvælastofnun.

Örn Einarsson hefur starfað við fyrirtæki fjölskyldunnar frá unga aldri. Hann gegndi stöðu framleiðslustjóra en tók við stjórn sölumála og hefur stýrt þeim um árabil, samhliða tækniþróun og uppbyggingu tengt nýjum vörum, tæknibúnaði og útvíkkun á starfsstöðvum fyrirtækisins og markaðssvæði.