Fasteignafélagið Kaldalón skilaði met afkomu á fyrstu sex mánuðum ársins en hagnaður fyrir skatta nam 2.107 milljónum króna, samanborið við 1.812 milljóna króna hagnað á fyrri helmingi 2022. Hagnaður eftir skatta nam 1.674 milljónum króna, samanborið við 1.421 milljón á sama tímabili í fyrra.

Þetta kemur fram í nýbirtu árshlutauppgjöri félagsins. Samstæðan átti í lok tímabils þrjátíu og sjö fasteignir til útleigu sem telja um 91.500 m2.

„Ég er ákaflega ánægður með rekstrarniðurstöðu tímabilsins. Mikill vöxtur hefur verið í tekjum samhliða vexti félagsins á fasteignamarkaði,“ segir Jón Gunnarsson, forstjóri Kaldalóns.

Félagið hefur verið skráð á First North-markaðinn frá því í ágúst 2019 en greint var frá því í fyrra að félagið stefndi á skráningu á aðalmarkað Kauphallarinnar haustið 2022. Það hefur tafist en Jón segir stjórnina hafa sett sér skýr markmið.

„Við höfum trú á því að þau náist á þriðja ársfjórðungi og höfum því hafið undirbúning fyrir skráningu. Á þessu stigi liggur ekki fyrir hvort samhliða verði ráðist í almennt útboð eða hvort félagið færi sig einfaldlega milli markaða án útgáfu hlutafjár. Það mun ráðast af markaðsaðstæðum og tækifærum til stækkunar eignasafnsins á þeim tímapunkti.“

Stærstu hluthafar Kaldalóns eru Skel fjárfestingafélag með 15,37% hlutdeild og Stapi lífeyrissjóður með 9,89% hlutdeild. Tíu stærstu hluthafarnir eiga samanlagt 67,17% hlutafjárs Kaldalóns.

Tíu stærstu hluthafar Kaldalóns

Nafnverð í milljónum króna Hlutdeild
Skel fjárfestingarfélag hf. 1.710,8 15,37%
Stapi lífeyrissjóður 1.101,0 9,89%
Norvik hf. 874,7 7,86%
Stefnir-Innlend hlutabréf hs. 867,9 7,80%
IcelandRent ehf. 617,7 5,55%
Premier eignarhaldsfélag ehf. 617,6 5,55%
Vátryggingarfélag Íslands hf. 490,0 4,40%
E&S 101 ehf. 479,6 4,31%
Stefnir-ÍS5 hs. 371,9 3,34%
Arion banki hf. 343,7 3,09%
Samtals tíu stærstu 7.474,9 67,17%
Aðrir hluthafar (572 talsins) 3.653,4 32,83%

Fjárfestingar ekki búnar að skila sér

Rekstrartekjur námu 1.438 milljónum króna og jukust um 145% milli ára. Rekstarhagnaðarhlutfall var 80,2% en var 58,9% á sama tímabili í fyrra. Haft er eftir Jóni í tilkynningu að tekjur af fjárfestingum á tímabilinu hafi ekki enn skilað sér inn í reksturinn en samstæðan með öllum kjarneignum tekjuberandi hefði skilað um það bil 2.080 milljónum króna í tekjum á tímabilinu.

Rekstrarkostnaður jókst um 18% frá sama tímabili í fyrra og nam 284 milljónum króna. Matsbreyting vegna fasteigna nam tveimur milljörðum. Vaxtagjöld jukust um hálfan milljarð, voru 1.048 milljónir á fyrstu sex mánuðum ársins en 515 milljónir á sama tímabili í fyrr.

Eigið fé félagsins var 22.146 milljónir króna í lok júní og eiginfjárhlutfall 42,2%. Arðsemi eigin fjár á ársgrundvelli var 17,2% en var 16,2% árið 2022. Félagið gaf nýverið út 30 milljarða króna útgáfuramma skuldaskjala og segir Jón að hann gegni lykilhlutverki í langtímafjármögnun félagsins.