Viðskipti hófust í dag með hlutabréf hjá fasteignafélaginu Kaldalón hf. á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland. Kaldalón er 26. félagið sem tekið er til viðskipta á mörkuðum Nasdaq Nordic í ár.

„Við settum okkur skýr og mælanleg markmið fyrir skráningu á Aðalmarkað Nasdaq Iceland sem hefur nú verið náð. Síðan félagið var skráð á Nasdaq First North hefur það farið í gegnum töluvert umbreytingarferli. Á þessum tíma hefur fjöldi hluthafa fimmfaldast sem sýnir að fjárfestar, stórir sem smáir deila okkar hugmyndafræði og framtíðarsýn,“ segir Jón Þór Gunnarsson, forstjóri Kaldalóns.

© Aðsend mynd/Auðunn Níelsson (Aðsend mynd/Auðunn Níelsson)

Fasteignafélagið er með dreift eignasafn á höfuðborgarsvæðinu og nálægt helstu höfnum og flughöfnum landsins. Það leggur áherslu á vöru- og iðnaðarhúsnæði, og verslunar- og þjónustuhúsnæði.

„Það er okkur mikil ánægja að bjóða Kaldalón velkomið á Aðalmarkaðinn. Félagið hefur verið mjög stefnufast í sinni veru á Nasdaq First North og lagt áherslu á að nýta sér vel þann sýnileika og tækifæri til vaxtar sem skráning veitir,“ segir Magnús Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland.