Átta milljarða dala kaup­hallar­sjóður Ark Invest, ARKK, skilaði 68% á­vöxtun í fyrra sam­kvæmt gögnum frá Morningstar enFinancial Times greinir frá.

C­athie Wood, for­stjóri Ark Invest, segir sjóðinn hafa gengið í gegnum erfiða tíma síðast­liðinn ár en nú sé hann loks að ná vopnum sínum.

Eigna­safn kaup­hallar­sjóðsins rýrnaði um 75% á tveggja ára tíma­bili á árunum 2021 og 2022 eftir um 150% á­vöxtun árið 2020 sem má að mestu rekja til hækkunar á virði bréfa í Tesla sem sjóðurinn á tölu­vert af.

Sjóðurinn fjár­festir nær ein­göngu í tækni- og sprota­fyrir­tækjum sem áttu mörg hver erfitt með að fóta sig þegar vextir hækkuðu.

„Ég veit ekki hvað gerðist fyrir okkur á árunum 2021 og 2022,“ segir Wood í sam­tali við Financial Times. „Niður­sveiflan er ó­skiljan­leg því ný­sköpunar­fyrir­tæki eru til­búin fyrir stóra sviðið,“ bætir Wood við sem er sann­færð um að vextir og verð­bólga lækki veru­lega á árinu.

Gengi ARKK hefur lækkað um 10% á árinu en lækkun á hluta­bréfa­verði Tesla spilar þar stórt hlut­verk.

Miklar sveiflur síðustu ár

Robby Green­gold, greiningar­aðili hjá Morningstar, segir að rann­sóknar­vinnan hjá Ark Invest bendi til þess að sjóðurinn sé oft að­eins of bjart­sýnn á markaðs­að­stæður og það gleymist jafn­vel oft að leiða hugann að öðrum mögu­legum niður­stöðum.

Kaup­hallar­sjóðurinn hefur endað síðast­liðin fjögur ár annað hvort með mestu eða verstu á­vöxtun vestan­hafs sam­kvæmt gögnum Morningstar. Kaup­hallar­sjóðir eru metnir með stjörnum á skalanum 1 til 5 hjá greiningar­fyrir­tækinu sem heldur á­fram að gefa ARKK eina stjörnu þrátt fyrir met­á­vöxtun í fyrra.