Greint var frá því á aðalfundi KEA að hagnaður af rekstri félagsins hafi verið 787 milljónir króna á síðasta ári. Hreinar fjárfestingatekjur voru 1.057 milljónir króna og hækkuðu um 290 milljónir króna milli ára.

Eigið fé var rúmir 9,5 milljarðar og heildareignir námu rúmum 9,8 milljarði króna. Eiginfjárhlutfall var rúmlega 97%.

Á árinu voru seldir eignarhlutir í Þekkingu og Eignarhaldsfélaginu Bjarma en það félag hélt á 5% eignarhlut í Samkaupum. Þá kemur einnig fram að hlutur félagsins í Stefnu jókst um 25%.

„Heilt yfir gekk félögum sem KEA á eignarhlut í ágætlega þrátt fyrir nokkurn breytileika í þróun afkomu einstakra verkefna. Áfram er unnið að því að endurfjárfesta fyrir það fé sem hefur fengist í eignasölum síðustu missera en á aðalfundinum voru kynntar áherslur félagsins í að auka verulega vægi fasteignatengdra verkefna í eignasafni sínu,“ segir í tilkynningu á heimasíðu KEA.

Fram kemur einnig að Eiríkur Haukur Hauksson og Snjólaug Svala Grétarsdóttir hafi verið endurkjörin í stjórn félagsins.