Kerecis auglýsir eftir tæplega 140 manns í lausar stöður innan fyrirtækisins, að því er kemur fram á umsóknavef þess. Langflest störfin eru staðsett í Bandaríkjunum, enda er landið langstærsti markaður fyrirtækisins. Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri Kerecis, greinir einnig frá ráðningaráformunum í vikulegu fréttabréfi til starfsfólks.

Þar kemur fram að ráðningateymi félagsins, undir stjórn Elinu Erlendsson, bíði stórt verkefni það sem eftir lifi árs. Það sé að ráða hundrað nýja starfsmenn í söluteymi félagsins, auk þess að ráða í sextíu aðrar stöður á öðrum sviðum sem muni flestar miða að því að styðja við söluteymið.

Að sögn forstjórans hafa ráðningar síðustu mánaða gengið vel. Hann segir einhverjar mikilvægustu stöðurnar sem standi til boða vera stöður svæðisstjóra og stjórnenda. Þegar hafi borist fjöldi umsókna í umræddar stöður frá vel metnu og hæfu fólki sem starfi utan sem innan fyrirtækisins. Stefnt sé á að ljúka ráðningaferlinu um miðjan nóvember.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild sinni hér.