Fjár­festar víðs vegar um heim eru byrjaðir að átta sig á því að kopar er orðinn meðal eftir­sóttustu eðal­málma á heims­vísu er heims­byggðin raf­væðist og fjar­lægist jarð­efna­elds­neyti.

Sam­kvæmt The Wall Street Journal hafa námu­vinnslu­fyrir­tæki notið góðs af hækkandi gull­verði síðustu misseri en fyrir­tækin eru um þessar mundir að nýta hagnað af hækkandi gull­verði til að fjár­festa í kopar.

Gull­fram­leið­endur líkt og Newmont og Barrick Gold hafa verið stór­tækir á kopar­markaðinum upp á síð­kastið með bæði yfir­tökum og fjár­festingum en kopar er gríðar­lega mikil­vægur málmur fyrir raf­bíla, vind­túrbínur og sólar­raf­hlöður.

The Wall Street Journal segir að Barrick sé að stefna að því að verða einn stærsti kopar­fram­leið­andi í heimi en kanadíska fyrir­tækið er með kopar­námu­vinnslu bæði í Pakistan og í kopar­beltinu í Zambia.

Mark Bristow, for­stjóri Barrick Gold, til­kynnti fjár­festum í nóvember að stefnt sé að því að gera námu­gröftinn í Pakistan að einni af stærstu kopar­námum heims árið 2028.

Banda­ríska fyrir­tækið Newmont sótti fram í kopar­námu­vinnslu í haust með því að kaupa ástralska kopar­námu­fyrir­tækið Newcrest Mining fyrir rúm­lega 15 milljarða banda­ríkja­dali.

Tilraunaboranir Amaroq lofa góða

Ís­lenska námu­vinnslu­fyrir­tækið Amaroq minerals, hóf til­raunar­boranir á þriðja árs­fjórðungi í Sava-kopar­beltinu í Græn­landi en fé­lagið fékk tvö ný leyfi til jarð­efna­leitar á Suður-Græn­landi í haust.

Meðal þeirra var leit í Nunar­suit sem tengir saman mögu­lega kopar­vinnslu í Sava við fyrir­liggjandi Jos­va-kopar­námuna í Kobberminebur­gt til vesturs.

Í byrjun árs 2023 birti Amaroq niður­stöður rann­sókna frá árinu áður á þróunar­svæðinu Kobberminebugt á Suður-Græn­landi. Sýni sem voru tekin við Jos­va-kopnar­námuna voru með allt að 4,2% kopar­magn á 2,5 metra breiðu belti og allt að 11,6% kopar­magn á ríf­lega 50 sentí­metra breiðu belti.

Úr fjárfestakynningu Amaroq í fyrra fyrir Sava svæðið.

„Fé­lagið heldur á­fram rann­sóknum á svæðum sem inni­halda efna­hags­lega mikil­væga málma og sýna þessar rann­sóknir enn betur fram á jarð­fræði­lega mögu­leika Suður-Græn­lands. Þessar niður­stöður benda til um­tals­verðrar kopar­myndunar í vestur­enda stein­efna­beltisins sem Amaroq er að kanna,“ sagði Eldur Ólafs­son, for­stjóri Amaroq, í til­kynningunni fyrir ári síðan.

„Hátt málm­hlut­fall í berginu við Kobberminebugt kemur ekki á ó­vart í ljósi sögu­legrar smá­námu­vinnslu á svæðinu og teymið okkar vinnur nú náið að því að bera kennsl á fleiri æðar og svæði sem hægt er að vinna. Mark­miðið er að finna nægi­legt vinnan­legt magn af kopar til að tryggja hag­kvæmni fram­tíðar­vinnslu á svæðinu. Við munum halda á­fram rann­sóknum á þessu ári og ég hlakka til að kynna fleiri já­kvæðar niður­stöður um þetta á næstunni,” bætti Eldur við.