Brynja Huld Óskarsdóttir, öryggis- og varnarmálafræðingur, segir það orðið ljóst af atburðarás síðustu klukkustunda og daga að viðskiptaþvinganir séu ekki næg hindrun (e. deterrence) á Rússland úr því sem komið er. Í öryggis- og varnarmálafræðum sé talað um að til þess að efnahagsþvinganir virki þurfi þeim að vera sterklega hótað eða beitt áður en ríkið sem þær beinist gegn hefur þær aðgerðir sem refsa á fyrir.

„Því er mögulegt að það sé of seint að grípa til efnahagsþvinganga gegn Rússlandi núna. Öllum ætti að vera ljóst að Pútín er tilbúinn að leggja mikinn pólitískan og fjárhagslegan kostnað að veði til að sýna heiminum að Úkraína er hans rauða lína þegar kemur að nálægð NATO við landið," segir Brynja Huld.

Fordæmalausar efnahagsþvinganir

Evrópusambandið, Bandaríkin og Bretland hafa ásamt fleiri þjóðum heitið fordæmalausum efnahagsþvingunum á Rússland. Þýskaland hefur þegar stöðvað öll áform um innleiðingu Nordstream 2 gasleiðslunnar og harðari aðgerðir eru í vændum sem beint er gegn rússneskum stjórnmálamönnum, áhrifamönnum, bönkum og öðrum fyrirtækjum. Meðal viðskiptaþvingana eru áform um að loka á aðgang rússneskra fyrirtækja og fjármálastofnana að alþjóðlegum fjármálamörkuðum auk frystingar bankareikninga. Sagði Ursula von der Leyen, framkvæmdastjóri ESB, á blaðamannafundi í dag að aðgerðirnar myndu lama efnahag Rússlands.

Brynja Huld nefnir að frá seinni heimsstyrjöld hafi viðskiptaþvinganir verið séðar sem einhverskonar „annar möguleiki" við stríð - tól sem hægt sé að beita í utanríkismálum og hefur verið beitt í tengslum við Írak-Kuwait, Bosníu og til að enda aðskilnaðarstefnu í Suður-Afríku.

„Mögulega er staðan sú að viðskiptaþvinganir séu ekki nóg til að stöðva Pútín og hann muni eingöngu bregðast við svokölluðu „hard-power."

Hótanir ekki hreyft við Kreml

Að sögn Brynju Huldar eru krumlur Kremlar víða; í bresku og evrópsku fjármálakerfi, í öryggissamstarfi víða um Afríku og í vestrænum orkugeirum. Vilji Vesturlönd sýna samstöðu sína með Úkraínu þurfi að grípa til aðgerða sem virkilega bíti - sumar þeirra muni hafa bein áhrif heima fyrir.

„Vesturlönd hafa hótað Rússlandi harkalega undanfarna daga. Fyrr í vikunni setti Þýskalandskanslari gasleiðsluna Nordstream 2 á pásu. Ég held að Pútín hafi ekki búist við að af því yrði því Evrópa er svo háð gasi frá Rússlandi, sérstaklega Þjóðverjar. En hótanir síðustu daga hafa ekki hreyft við Kreml," segir Brynja Huld.

Útilokun Rússlands frá Swift-kerfinu væri sú aðgerð sem líklegust væri til að hafa raunveruleg áhrif. „Mér heyrist hins vegar innan úr Brussel að Evrópusambandið sé ólíklegt til að grípa til þeirrar aðgerðar fyrr en lengra er á liðið. Ástæðan fyrir tregðunni er einfaldlega sú að þá yrði erfitt fyrir evrópska fjármagnseigendur að fá peninga sína í rússneskum bönkum til baka," segir Brynja Huld.

Rúblan aldrei veikari

Rússneskur hlutabréfamarkaður lækkaði á methraða og gengi rúblunnar hríðféll stuttu eftir að allsherjarárás Rússlands inn í Úkraínu hófst. Moex hlutabréfavísitalan lækkaði um 45% eftir opnun markaða og hefur gengi rúblunnar gagnvart Bandaríkjadal aldrei verið veikara. Hlutabréf í rússnesku orkufyrirtækjunum Gazprom, Lukoil og Novatek lækkuðu öll um yfir 40%. Innrásin hafði jafnframt áhrif á hlutabréfamarkaði um allan heim en þó í minni mæli.

Brynja Huld segir atburðarásina og hernaðarlega uppbyggingu undanfarinna daga og mánaða vera einsdæmi frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar. „Það er búið a reyna diplómasíu, það er búið að reyna stjórnmálasættir, ætla má að efnahagsþvingunum verði gefnir einhverjir dagar eða vikur áður en gripið verður til hernaðarlegra aðgerða," segir Brynja Huld.

Líflína frá Kína?

Í frétt Financial Times í dag er fjallað um mögulega líflínu sem Kína gæti veitt rússneskum efnahag til að draga úr áhrifum viðskiptaþvingana Vesturlanda. Meðal annars gætu kínverskir ríkisbankar veitt lán til Rússlands og Kína séð þeim fyrir vörum. Kínversk stjórnvöld hafa enn sem komið er neitað að fordæma innrásina og telja enn möguleika á „friðsamlegri lausn".

„Á þessum tímapunkti er ólíklegt að Kína veiti Rússlandi beinan fjárhagslegan stuðning, enda gæti það haft neikvæð áhrif á samskipti Kína við Vesturlönd. Hins vegar gætu ríkin haldið áfram að auka efnahagslegt samband sitt og gert fleiri viðskiptasamninga," segir Guðbjörg Ríkey Th. Hauksdóttir, doktorsnemi í stjórnmálafræði sem er að rannsaka samskipti Kína og Rússlands á norðurslóðum.

Hún segir Kína og Rússland nýlega hafa útvíkkað samninga um kaup á hveiti sem nái nú til allra svæða Rússlands en áður hafi þeir einungis náð til takmarkaðra svæða.

„Það er ljóst að Rússland ætlar sé að nýta viðskipti við Kína til að vega upp á móti viðskiptaþvingunum Vesturvelda," segir Guðbjörg Ríkey en hún nefnir einnig að Úkraína sé einn stærsti útflutningsaðili hveitis í heiminum.