Fjármálaráðuneytið segir að ábending Arion banka um að birting lista yfir alla þátttakendur í áformuðu útboði á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka verði hugsanlega til þess að draga úr áhuga almennings á þátttöku sé hárrétt. Jafnframt tekur ráðuneytið undir að þessi ráðstöfun feli í sér frávik frá almennri venju á fjármálamarkaði.

„Mögulegt er að þessi fyrirætlan muni verða til þess að verð eignarhlutarins verði lægra en ella og er það sá fórnarkostnaður sem viðbótarskilyrði um gagnsæi getur haft í för með sér,“ segir í skjali um niðurstöður samráðsferlis um frumvarpsdrög um ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka.

„Ef aukin áhersla væri á meginregluna um hagkvæmni þá kæmi þetta skilyrði mun síður til greina.“

Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um á dögunum er ráðgert að fjármálaráðherra muni birta kennitölur og nöfn allra kaupenda í útboðinu. Í greinargerð frumvarpsdraganna segir að „engum blöðum er um það að fletta að með ákvæðinu er gengið nokkuð langt í birtingu almennra persónuupplýsinga“.

Ráðgjafarhlutverk ekki að fullu útlistað í drögunum

Arion banka dró þá ályktun í umsögn sinni um frumvarpsdrögin að fjármálaráðuneytið ráðgeri ekki að fá utanaðkomandi aðila til að annast hlutverk umsjónaraðila útboðsins og sinna þannig ráðgjöf og samræmingarhlutverki milli allra söluaðila eins og alla jafna er hefðbundið. Þess í stað virðist einungis ráðgert að ráðinn verði sérstakur umsjónaraðili tilboðsbóka.

Fjármálaráðuneytið segir að ábendingar Arion um aðkomu ráðgjafa í söluferlinu séu byggðar misskilningi en séu að vissu marki skiljanlegar.

„Framkvæmd útboðs verður háð aðkomu sérfróðra ráðgjafa þótt slík ráðgjöf sé ekki útlistuð að fullu í frumvarpsdrögunum sem kynnt voru í samráðsgátt. Tekið verður tillit til þessarar ábendingar í frumvarpinu.“

Ráðuneytið segir að í þágu fyrirsjáanleika hafi verið bætt við drögin sérstakri heimild til að fela einum aðila eða fleirum að annast skipulagningu og yfirumsjón útboðsins.

Bregðast við gagnrýni á nýlundu á íslenskum markaði

Arion gagnrýndi einnig opna heimild fyrir aðila til að fara með söluumboð í útboðinu og sagði hana geta leitt til þess að söluaðilar skipti tugum.

Um sé að ræða nýmæli á íslenskum markaði sem er til þess fallin að leiða til óskipulegrar framkvæmdar þar sem margir og ólíkir söluaðilar munu bítast um söluna og herja á sömu hópa fjárfesta án þess að lúta stjórn eins umsjónaraðila sem ber verkstjórnarábyrgð á framkvæmdinni gagnvart seljanda.

Fjármálaráðuneytið segir að brugðist hafi verið við þessari ábendingu með því að árétta í viðkomandi grein að aðilar kunni að vera fengnir til að stýra söluframkvæmdinni. Þá verði krafist af söluaðilum að þeir skili umsóknum tímanlega til að þeir megi átta sig á framkvæmd útboðsins. Orðalag viðkomandi ákvæðis hafi verið uppfært til að endurspegla framangreint.

„Rétt er að undirstrika að sú framkvæmd sem frumvarpið kveður á um girðir ekki fyrir frekari ráðgjöf við seljanda.“

Skipuleg framkvæmd án skipulags á samkeppni söluaðila

Ráðuneytið segist ekki telja ástæðu til að ætla að markaðssetning útboðsins líði fyrir fjölda söluaðila. Það sé ekki ókostur að bitist verði um hópa fjárfesta og því ekki brýnt að koma stífu skipulagi á samkeppnina.

„Þá ætti ekki að vera nauðsynlegt að fækka söluaðilum í því skyni að auka fylgni við lög. Að því sögðu þá hefur verið bætt við frumvarpsdrögin heimild til að fela einum aðila eða fleirum að annast skipulagningu og yfirumsjón útboðsins.“

Ráðuneytið segist ætla að kappkosta við að framkvæmdin af þess hálfu verði skipuleg „þótt það feli ekki í sér að koma skipulagi á samkeppni milli söluaðila“.