Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra mun birta opinberlega sundurliðaðar upplýsingar um hver og ein viðskipti í fyrirhuguðu almennu hlutafjárútboði á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka, samkvæmt frumvarpsdrögum um ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka.

Þannig er ráðgert er að ráðherra muni birta kennitölur og nöfn allra kaupenda í útboðinu.

„Engum blöðum er um það að fletta að með ákvæðinu er gengið nokkuð langt í birtingu almennra persónuupplýsinga,“ segir í greinargerð frumvarpsins.

Í greinargerðinni segir einnig að sú almenna skylda hvíli á ráðherra samkvæmt frumvarpinu að tryggja gagnsæi með upplýsingagjöf við undirbúning og framkvæmd ráðstöfunar eignarhlutar.

Ráðuneytið segir að birting upplýsinga um kaupendur er sérstaklega tilgreind í ákvæði um sérstakt hæfi, upplýsingagjöf og úttekt vegna þess að talið er að þetta atriði geti fallið undir sérstakt þagnarskylduákvæði í lögum um fjármálafyrirtæki.

Gefa einstaklingum forgang

Fjármálaráðherra stefnir að markaðssettu útboði þar sem almenningi gefst kostur á að taka þátt, ólíkt síðasta útboði á eignarhlut ríkisins Íslandsbanka. Frumvarpsdrögin kveða jafnframt á um að sala til einstaklinga hafi forgang.

Fjármálaráðuneytið birti eftirminnanlega lista yfir alla 209 þátttakendur í lokuðu útboði Bankasýslu ríkisins á 22,5% hlut í Íslandsbanka í mars 2022 eftir gagnrýni á gagnsæi í söluferlinu. Ekki stóð til að birta þessar upplýsingar í aðdraganda útboðsins.

Ekki voru birtar upplýsingar um alla þátttakendur í frumútboði Íslandsbanka í júní 2021, sem var fyrsta skref ríkisins í sölu á eignarhlut sínum í bankanum. Níföld eftirspurn var í útboðinu og voru hluthafar bankans um 24 þúsund í kjölfar útboðsins.

Arion: Dregur úr áhuga almennings og bætir litlu við úttekt

Í umsögn Arion banka um frumvarpsdrögin er varað við að áform um birtingu kaupendalista í kjölfar útboðsins reynist til þess fallin að draga úr áhuga almennings á þátttöku í útboðinu.

Almenn venja sé að birta takmarkaðar upplýsingar um þátttöku einstakra aðila í útboðum. Jafnframt er bent á að einungis 20 stærstu hluthafar skráðra félaga eru nafngreindir á hluthafalistum viðkomandi félaga.

Þá sé ljóst að afla þurfi samþykkis þeirra einstaklinga sem taka munu þátt í útboðinu fyrir birtingu persónuupplýsinga í tengslum við útboðið.

„Að mati Arion banka hf. er fyllilega eðlilegt að hyggja að gagnsæi við sölu ríkiseigna. Engu að síður er nauðsynlegt að mæla skýrlega fyrir um það að sú skylda til upplýsingagjafar sem frumvarpið lýsir sé ætlað að fela í sér sérreglu (lex specialis) er víkur til hliðar hinni almennu bankaleynd.

Er það knýjandi í ljósi þess að frumvarpið gerir ráð fyrir því að hver og einn söluaðili haldi eigin áskriftarbók fyrir eigin viðskiptavini og leggi fram tilboð í eigin nafni til seljanda, eins og lýst er að framan. Sá það ekki gert væri hverjum og einum söluaðila skylt að afla samþykkis viðskiptavina sinna fyrir miðlun trúnaðarupplýsinga um það, með þeim hætti sem frumvarpið lýsir.“

Arion telur að úttekt óháðs aðila, líkt og kveðið er á um í frumvarpsdrögunum, sé eðlilegri leið til þess að ná fram markmiðum frumvarpsins um gagnsæi, hagkvæmni, hlutlægni og jafnræði við úthlutun.

„Opinber birting upplýsinga um einstaka bjóðendur, kennitölur þeirra, nöfn, áskriftarfjárhæð o.s.frv bætir litlu við slíka úttekt.“

Bankasýslan varaði við birtingu

Eftir lokaða útboðið á 22,5% eignarhlut í Íslandsbanka árið 2022 vöruðu Bankasýslan og lögfræðiráðgjafar hennar við að óvarlegt væri að birta upplýsingar um mótaðila ríkisins í viðskiptunum með vísan í lög um fjármálafyrirtæki sem varða bankaleynd. Í minnisblaði sem LOGOS vann fyrir banaksýsluna segir m.a.:

„Ákvæði persónuverndarlaga girða fyrir miðlun eða opinbera birtingu upplýsinga um einstaka bjóðendur í útboðinu og úthlutanir til þeirra er einstaklingar eiga í hlut nema fyrir liggi samþykki. Lögin koma þó ekki í veg fyrir að Bankasýsla ríkisins birti tölfræðiupplýsingar eða aðrar ópersónugreinanlegar upplýsingar um útboðið.“

Fjármálaráðuneytið gaf það út samhliða birtingu kaupendalistans að það hefði lagt sjálfstætt mat á þær röksemdir sem settar voru fram varðandi bankaleynd. Ráðuneytið mat það svo að upplýsingar um viðskipti á milli ríkissjóðs og fjárfesta féllu ekki undir bankaleynd.

Með hliðsjón af mikilvægi gagnsæis um ráðstöfun opinberra hagsmuna ákvað Bjarni Benediktsson, þáverandi fjármálaráðherra að birta listann.