Linda Jónsdóttir hefur verið ráðinn aðstoðarforstjóri og fjármálastjóri íslenska heilbrigðistæknifyrirtækisins Sidekick Health.

Linda lét nýverið af störfum hjá Marel þar sem hún hafði starfað í 15 ár, síðast sem framkvæmdastjóri rekstrar en þar áður lengst af sem fjármálastjóri félagsins.

Linda mun áfram gegna stjórnarformennsku í Íslandsbanka samhliða störfum sínum hjá Sidekick en hún tók sæti í stjórn bankans sumarið 2023. Hún hefur einnig setið í stjórn Framtakssjóðs Íslands, Viðskiptaráðs og Vísindagarða​.

„Ég er ótrúlega spennt að koma til liðs við Sidekick Health. Félagið er leiðandi þegar kemur að því nýta tækni til að nútímavæða meðferð við alvarlegum sjúkdómum. Það er held ég engin tilviljun að 5 af 20 stærstu heilbrigðisfyrirtækjum heims eru með samstarfssamning við Sidekick og meira en tólf þúsund læknar ávísa meðferðum þess reglulega. Það er til marks um þá vinnu sem búið er að leggja inn hjá þessu flotta fyrirtæki og ég hlakka til að taka þátt í næsta kafla á þeirri vegferð,“ segir Linda.

Hún er með Cand Oecon gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands auk meistaragráðu í fjármálum fyrirtækja frá Háskóla Reykjavíkur. Linda er gift Yngva Halldórssyni viðskiptafræðingi og eiga þau þrjú börn.

Sidekick Health, sem var stofnað af læknunum Tryggva Þorgeirssyni og Sæmundi Oddssyni árið 2014, nýtir stafrænar lausnir til að bæta útkomu hefðbundinnar lyfjagjafar og styðja við fjarvöktun sjúklinga. Fyrirtækið er með yfir 20 heilbrigðismeðferðir í þróun og rannsóknum.

„Það er mikill styrkur að fá svo sterkan stjórnanda til liðs við félagið nú þegar við erum að taka næsta skref í okkar rekstri. Linda hefur skilning á þeim breytingum sem þurfa að eiga sér stað hjá félögum sem vilja vaxa alþjóðlega. Hún kemur inn með víðtæka reynslu og sterka sýn á lykilverkefnin framundan og ég hlakka til að vinna með henni,“ segir Tryggvi Þorgeirsson, forstjóri Sidekick Health.

Umsvif Sidekick jukust umtalsvert í lok síðasta árs með yfirtöku á þýska fyrirtækinu aidhere GmbH, sem hefur verið leiðandi í lyfseðilskyldum heilbrigðistæknilausnum.