Reginn fasteignafélag hagnaðist um 3,9 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi 2024 samanborið við 1,2 milljarða hagnað á sama tímabili í fyrra. Reginn birti uppgjör eftir lokun Kauphallarinnar í dag.

Aukinn hagnað má að stærstum hluta rekja til hærri matsbreytingar fjárfestingareigna sem nam 5,2 milljörðum á fyrstu þremur mánuðum ásins samanborið við 3 milljarða á sama tíma í fyrra.

Leigutekjur Regins á fyrsta fjórðungi jukust um 8,9% milli ára og námu 3,3 milljörðum króna. Útleiguhlutfall var 97% sem er sambærilegt og verið hefur. Rekstrarhagnaður félagsins fyrir matsbreytingu jókst um 11,2% og nam nærri 2,4 milljörðum króna.

„Rekstur gengur vel og er í takt við áætlanir. Við finnum fyrir sterkri eftirspurn eftir atvinnuhúsnæði. Tekjuvöxtur leigutekna er 8,9% á fyrstu þremur mánuðum ársins sem jafngildir 1,4% rauntekjuvexti,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, forstjóri Regins.

„Reginn hefur fjárfest í uppfærslum á eignasafni og nýjum eignum á undanförnum árum, þessar fjárfestingar eru grundvöllur 8,9% vaxtar leigutekna á fyrsta ársfjórðungi. Heildarfermetrum eignasafnsins hefur fækkað um tæp 2% frá árslokum 2022.“

Virði fjárfestingareigna félagsins að frádregnum leigueignum er metið á 185,6 milljarða króna. Safnið samanstendur nú af 99 fasteignum sem alls eru um 374 þúsund fermetrar.