Stjórn Regins hyggst óska eftir heimild Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (FME) til að falla frá valfrjálsu tilboði félagsins í allt hlutafé Eikar fasteignafélags. Samhliða því hefur Reginn ákveðið að afturkalla samrunatilkynningu félagsins sem send var inn til Samkeppniseftirlitsins (SKE) í september síðastliðnum vegna mögulegs samruna fasteignafélaganna tveggja.

Í tilkynningu Regins til Kauphallarinnar kemur fram að stjórnendur Regins funduðu með stærsta hluthafa Eikar, Brimgörðum, í síðustu viku eftir að hafa birt drög að útfærslu sáttar við Samkeppniseftirlitið og nánari umfjöllun um skiptihlutföll mögulegs samruna félagsins og Eikar.

„Á grundvelli þessa er það heildstætt mat Regins að skilyrði tilboðsins um að handhafar að lágmarki 75% atkvæðaréttar Eikar samþykki tilboðið muni fyrirsjáanlega ekki nást áður en gildistími tilboðsins rennur út þann 21. maí næstkomandi.“

„Frumkvæði drífur framfarir. Við munum vinna hratt úr þessari niðurstöðu og byggja á langtímastefnu Regins sem felur í sér að selja tilteknar eignir og endurfjárfesta í fasteignum innan skilgreindra kjarna, einkum í nýbyggingum. Munum við meðal annars nýta réttindi sem Reginn á tengd þróunareignum hjá Klasa,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, forstjóri Regins, í tilkynningunni.

„Það verða farnar aðrar leiðir að sama marki. Þessi samruni er síður en svo eina sóknarfærið sem við höfum augastað á. Markmið okkar er að byggja upp til langs tíma og halda áfram að styrkja kjarnasvæði Regins sem eiga inni mikil vaxtatækifæri. Það er ljóst að búið er að hrista upp í markaðnum og það eru áhugaverðir tímar framundan.“

Viðræðum Regins og Kaldalóns slitið

Á þriðjudaginn síðasta tilkynnti Reginn um tillögur að mögulegum aðgerðum og skilyrðum fyrir sátt við SKE í tengslum við yfirtökutilboð félagsins í Eik fasteignafélag. Tillögurnar fólu m.a. í sér sölu á 41 fasteign sem nema samtals um 90 þúsund fermetra af atvinnuhúsnæði í væntanlegu sameinuðu eignasafni Regins og Eikar.

Sem hluti af þessu ferli hófu Reginn og Kaldalón viðræður um möguleg kaup Kaldalóns á fasteignum sem telja samanlagt um 47 þúsund fermetra af atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu.

Í ljósi þess að Reginn hefur ákveðið að afturkalla samrunatilkynningu félagsins til SKE hefur viðræðum Regins og Kaldalóns verið slitið.

Beina sjónum sínum að öðrum tækifærum

Reginn lagði upphaflega fram valfrjálst tilboð í allt hlutafé Eikar þann 7. júní á síðasta ári í kjölfar markaðsþreifinga við stærstu hluthafa Eikar.

Stjórn Eikar lagði upphaflega til að tilboðinu yrði hafnað en eftir að Reginn hækkaði tilboðsverðið þann 14. september síðastliðinn lagði stjórn Eikar áherslu á að hver hluthafi tæki ákvörðun en endanleg greinargerð stjórnar Eikar liggur ekki fyrir.

Gildistími tilboðsins var framlengdur alls sjö sinnum vegna rannsóknar Samkeppniseftirlitsins á mögulegum samruna, frummats þess á væntum áhrifum mögulegs samruna og vegna sáttaviðræðna Regins við Samkeppniseftirlitið.

Í tilkynningunni sem Reginn sendi frá sér í morgun segir að nú liggi fyrir að sótt verði um afturköllun tilboðsins hjá FME, í samræmi við lög um yfirtökur, á grundvelli þess að skilyrði tilboðsins munu fyrirsjáanlega ekki verða uppfyllt. Tilboðið haldi gildi sínu, á meðan gildistíma þess stendur, þar til FME hefur veitt heimild til þess að það verði afturkallað.

„Stjórn og stjórnendur félagsins mun í kjölfarið beina sjónum sínum að öðrum tækifærum.“