Reginn fasteignafélag hefur lagt fram tillögur að mögulegum aðgerðum og skilyrðum fyrir sátt við Samkeppniseftirlitið í tengslum við yfirtökutilboð félagsins í Eik fasteignafélag.

Tillögurnar fela m.a. í sér sölu á 41 fasteign sem nema samtals um 90 þúsund fermetra af atvinnuhúsnæði í væntanlegu sameinuðu eignasafni Regins og Eikar. Þar af yrðu um 14 þúsund fermetrar af núverandi eignasafni Regins og 76 þúsund fermetrar úr eignasafni Eikar.

Tillagan felst að stærstum hluta í sölu á skrifstofu- og verslunarhúsnæði á ákveðnum samkeppnissvæðum á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri. Lagt er til að eignasalan muni eiga sér stað á tveimur sölutímabilum á ríflega þriggja ára tímabili.

Heildarstærð eignasafns sameinaðs félags Regins og Eikar eftir sölu eigna yrði um 600 þúsund fermetrar.

Á höfuðborgarsvæðinu leggur Reginn til að selja samtals 54 þúsund fermetra af skrifstofuhúsnæði á staðsetningum sem falla aðallega innan póstnúmera 101, 105, 108 og 201. Þá leggur Reginn til að selja um 23 þúsund fermetra af verslunarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu.

Á Akureyri leggur Reginn til að selja fasteignir sem telja um 2 þúsund fermetra af skrifstofuhúsnæði. Auk þess leggur Reginn til að selja samtals 11 þúsund fermetra af öðru atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu.

„Þær eignir sem félagið leggur til að verði seldar eru að mati félagsins stöndugar gæðaeignir sem munu veita fullnægjandi samkeppnislegt aðhald á markaði fyrir útleigu atvinnuhúsnæðis í höndum nýrra eigenda," segir í tilkynningu Regins.

Tillögur Regins lúta einnig að skuldbindingum félagsins á fyrirhuguðu sölutímabili eignanna, m.a. um að varðveita samkeppnishæfni sölueigna, hömlur á eignakaupum á sölutímabili, bann við endurkaupum sölueigna og fleira. Auk þessa eru ákvæði sem eiga að tryggja samkeppnislegt sjálfstæði Regins í garð keppinauta sinna, m.a. um óhæði stjórnarmanna.

Áætluð stærð eignasafns sameinaðs félags Regins og Eikar fyrir og eftir samrunann.

Viðræður um sölu á 47 þúsund fermetrum til Kaldalóns

Reginn og Kaldalón hafa hafið viðræður um möguleg kaup Kaldalóns á fasteignum sem telja samanlagt um 47 þúsund fermetra af atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Núverandi eignasafn Kaldalóns telur um 110 þúsund fermetrar.

„Áréttað skal að viðræður Kaldalóns og Regins eru á frumstigi og hefur engin ákvörðun verið tekin af hálfu stjórnar Kaldalóns um hvort lagt verði fram skuldbindandi tilboð í þær fasteignir sem um ræðir,“ segir í tilkynningu Kaldalóns til Kauphallarinnar.

Fram kemur að gert sé ráð fyrir því að viðskiptin, gangi þau eftir, verði gerð upp í kjölfar uppgjörs á áðurnefndu valfrjálsu tilboði Regins í hlutafé Eikar en gildistími valfrjálsa tilboðsins rennur út þann 21. maí næstkomandi. Kaldalón hyggst ekki gefa út nýtt hlutafé verði af viðskiptunum.

Í kynningu Regins vegna sáttatillaganna kemur fram að horft sé til allt að 7 milljarða króna mögulegrar sértækrar arðgreiðslu á næstu 12 mánuðum vegna þessa söluferlis.

Í samantekt um tillögur Regins hf. og helstu álitaefni, sem birt er á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins, kemur fram að Reginn leggi til að selja fasteignir sem telja samtals um 47 þúsund fermetra af atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu áður en samruninn kemur til framkvæmdar.

Kveðið er á um að í kjölfar samrunans hyggist Reginn selja fasteignir sem telja samtals um 43 þúsund fermetra af atvinnuhúsnæði og skal salan ekki taka lengri tíma en 36 mánuði frá framkvæmd samrunans.

SKE óskar eftir sjónarmiðum helstu markaðsaðila

Reginn sendi Samkeppniseftirlitinu heildstæðar tillögur að sátt í gær. Fasteignafélagið telur að tillögurnar sé til þess fallnar að ryðja úr vegi þeim samkeppnishindrunum sem eftirlitið telur, í frummati sínu, að myndu annars leiða af samrunanum.

„Samkeppniseftirlitið hefur upplýst að það telur tillögurnar nægilega heildstæðar til þess að fjalla um þær í markaðsprófi og hefur í dag óskað eftir athugasemdum og sjónarmiðum hagaðila um tillögur Regins að mögulegum skilyrðum,“ segir í tilkynningu Regins til Kauphallarinnar.

Samkeppniseftirlitið hefur sent helstu markaðsaðilum bréf með ósk um sjónarmið og svör um álitaefni er tengjast sáttatillögunum, að því er segir í tilkynningu á vef eftirlitsins.