Tesla hefur rekið alla starfsmenn sem unnu í Supercharger-hraðhleðsludeild fyrirtækisins en fleiri hundruð manns unnu í deildinni. Fréttamiðillinn BBC greinir frá þessu en Tesla hefur ekki svarað fyrirspurnum þeirra um málið.

Elon Musk hefur áður sagt að fyrirtækið muni þurfa að segja upp einum af hverjum tíu starfsmönnum þar sem Tesla stæði frammi fyrir harðri samkeppni frá keppinautum sem bjóði upp á ódýrari rafbíla.

Fyrrum starfsmenn hafa staðfest uppsögn sína en deildin bar meðal annars ábyrgð á hönnun og uppsetningu þessara hraðhleðslustöðva um allan heim. Musk sagði á samfélagsmiðlinum X að fyrirtækið hygðist stækka Supercharger-verkefnið en með hægara móti.

Steve Gooding, forstjóri samgöngu- og rannsóknarfyrirtækisins RAC Foundation, segir að ákvörðun Tesla gæti hugsanlega dregið úr trausti tilvonandi rafbílakaupenda.

„Þú þarft að vera fullviss um að fólkið sem selur þér farartækin sjái sterka framtíð fyrir tæknina. Ef framleiðendur halda aftur af metnaði sínum þýðir það að ökumenn gætu hugsað sig tvisvar um að fara yfir í rafmagn eða að minnsta kosti seinka kaupunum þar til jákvæðari fréttir berast,“ segir Steve.