Í dag var skrifað undir samkomulag sem formlega bindur enda á meira en aldarlöng afnot Orkuveitunnar og forvera hennar af Elliðaánum til raforkuvinnslu. Í samkomulaginu er kveðið á um hvernig Orkuveitan muni skila dalnum til borgarinnar um næstu áramót.

Jafnframt samdi Reykjavíkurborg við Veitur um brúarsmíð og eflingu umhverfisverndar í dalnum.

Það voru Einar Þorsteinsson borgarstjóri, Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Orkuveitunnar, og Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastýra Veitna, sem undirrituðu samningana í Rafstöðinni við Elliðaár í dag.

Rafstöðin var tekin í notkun sumarið 1921 en síðast var framleitt í henni rafmagn árið 2014. Það ár bilaði aðrennslispípa virkjunarinnar og var metin ónýt. Raforkuframleiðsla var mjög lítil undir það síðasta og ekki þótti svara kostnaði að hefja hana að nýju.

Orkuveitan mun áfram reka áningar- og fræðslustaðinn Elliðaárstöð í húsunum við Rafstöðina en í samkomulagi Orkuveitunnar og Reykjavíkurborgar er meðal annars kveðið á um hvernig staðið verður að niðurlagningu annarra raforkumannvirkja, sem öll eru friðuð. Þá skilar Orkuveitan vatnsréttindum, þar með talið veiðirétti, til Reykjavíkurborgar.