Fjármála- og efnahagsráðherra hefur lagt fram drög að frumvarpi í Samráðsgátt sem snúa að ráðstöfun eingarhlutar í Íslandsbanka hf. en frumvarpið felur í sér heimild til sölu eftirstandandi hlutar ríkisins í bankanum.

Sem stendur á ríkið 42,5% í Íslandsbanka eða 850 milljón hluti. Samkvæmt fjárlögum 2024 er gert ráð fyrir að ríkissjóður selji helming af eftirstandandi hlut á árinu 2024. Um tilefni og nauðsyn lagasetningar segir að það tengist þeirri krefjandi stöðu sem ríkissjóður stendur frammi fyrir.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að með tilliti til þess að búið sé að slá út af borðinu sölu af hálfu Bankasýslunnar sé sá kostur helst í stöðunni að leggja til heimild til sölu Íslandsbanka undir stjórn fjármála- og efnahagsráðherra á grundvelli sérstakra laga. Með slíkri lagasetningu væri unnt að kveða á um af hálfu Alþingis hvaða söluaðferðir verði heimilaðar.

Vísað er til þess að fram til þessa hafi eignarhlutir ríkisins í Íslandsbanka verið seldir í almennu útboði, annars vegar í frumútboði árið 2022 og með hröðuðu tilboðsfyrirkomulagi árið 2023. Síðarnefnda fyrirkomulagið þykir síður koma til álita við frekari ráðstöfun í ljósi annmarka sem komu fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Bjarni Benediktsson, sem var fjármálaráðherra þegar fyrri tvö útboðin fóru fram, steig til hliðar í haust eftir að umboðsmaður Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að hann hafi skort hæfi við söluna í seinna skiptið. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir tók þá við sem fjármálaráðherra.

Frumvarpið nær aðeins til sölu á tilteknu fjármálafyrirtæki og er heimildin einskorðuð við tilteknar söluaðferðir sem þykja tiltölulega einfaldar, gagnsæjar og til þess fallnar að tryggja jafnræði.

Til að mynda er ráðherra gert að tryggja virka upplýsingagjöf um undirbúning og framkvæmd og að loknu útboði þarf ráðherra að birta opinberlega sundurliðaðar upplýsingar um hver og ein viðskipti með eignarhluti, þ.m.t. kennitölur og nöfn kaupenda, og fela óháðum aðila að gera úttekt á því hvort meginreglum hafi verið fylgt. Þá er lagt til að Íslandsbanki komi ekki með beinum hætti að sölunni.

Samhliða samþykkt frumvarpsins er gert ráð fyrir að lög um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum falli á brott, sem og hlutverk Bankasýslu ríkisins við sölu eignarhluta. Þar með verði ekki til staðar lög um heimildir til sölu á hlut ríkisins í öðrum fjármálafyrirtækjum en hlutverk Bankasýslunnar verður einskorðað við meðferð eignarhluta í fjármálafyrirtækum fram til þess að hún verður lögð niður.

Vinna við útfærslu nýs heildstæðs fyrirkomulags varðandi utanumhald eignarhluta í fjármálafyrirtækjum og öðrum félögum í eigu ríkisins stendur nú fyrir.