Óánægja ríkir meðal hóps starfsmanna Landsbankans um skylduaðild í Lífeyrissjóð bankamanna. Fækkandi sjóðfélagar og neikvæð tryggingafræðileg staða undanfarin ár eru meðal áhyggjuefna og þeir telja að skylduaðildin kunni að stangast á við lög.

Aðildarfyrirtæki að Lífeyrissjóði bankamanna samkvæmt samþykktum sjóðsins eru Landsbankinn, Seðlabanki Íslands, Reiknistofa bankanna, og Valitor, dótturfélag Arion banka. Í árslok 2020 voru 1.839 sjóðfélagar hjá sjóðnum en þeim hefur fækkað nokkuð síðustu ár, í takt við fækkun starfsmanna aðildarfyrirtækja, og voru til samanburðar 2.111 talsins árið 2015. Þá á eftir að koma í ljós hvort Valitor verði áfram aðildarfyrirtæki að sjóðnum ef sala á kortafyrirtækinu til Rapyd Europe gengur í gegn.

Stór meirihluti landsmanna greiðir í lífeyrissjóði samkvæmt skylduaðild. Hins vegar er skylduaðild að Lífeyrissjóði bankmanna frábrugðin öðrum tilfellum að því leyti að ekki er kveðið á um hana í kjarasamningum eða lögum heldur í ráðningarsamningum aðildarfyrirtækja. Því geta starfsmenn annarra banka, þar á meðal Arion og Íslandsbanka, með kjarasamning hjá Samtökum starfsmanna fjármálafyrirtæka (SSF) valið sér lífeyrissjóð. Umræddir starfsmenn Landsbankans telja að þetta kunni að stangast á við lög um lífeyrissjóði.

Fyrir rúmu ári síðan svaraði fjármála- og efnahagsráðuneytið fyrirspurn um skylduaðildina á þann veg að þrátt fyrir að ekki væru skýr ákvæði í kjarasamningi um aðild að tilteknum lífeyrissjóði yrðu ákvæði um greiðsluskyldu atvinnurekenda skýrð í samræmi við fyrri framkvæmd. Því væri um að ræða venjubundna skipan mála sem ekki yrði breytt nema með kjarasamningi eða lögum og að ekki væru forsendur til að kanna nánar grundvöll samþykkta sjóðsins. Það væri þá á vettvangi aðildarfyrirtækja og félagsmanna þeirra eða eftir atvikum dómstóla að skera úr um álitamál um skylduaðild.

Furða sig á Seðlabankanum

Ákveðin rót óánægjunnar snýr að því að dæmi eru um að starfsmenn annarra aðildarfyrirtækja hafi fengið undanþágu frá skylduaðildinni. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur Reiknistofa bankanna veitt starfsfólki sínu svigrúm til að greiða í aðra lífeyrissjóði ef þess er óskað.

Þá féllst Seðlabankinn á að heimila hópi fyrrverandi starfsmanna Fjármálaeftirlitsins (FME) að greiða í annan lífeyrissjóð en Lífeyrissjóð bankamanna eftir að starfsmaður eftirlitsins, með kjarasamning hjá SSF, stefndi Seðlabankanum vegna skylduaðildar að sjóðnum í kjölfar sameiningar stofnananna.

Í svari við fyrirspurn frá þremur starfsmönnum Landsbankans segir Seðlabankinn að við sameininguna við FME í ársbyrjun 2020 hafi hann yfirtekið ráðningarsamninga starfsmanna eftirlitsins. Kveðið hafi verið á um í ákvæði til bráðabirgða vegna sameiningarinnar að starfsmenn eftirlitsins myndu halda sömu ráðningarkjörum og aðild að stéttarfélagi ef þeir kysu svo. Hins vegar hafi þetta ekki áhrif á aðild annarra starfmanna Seðlabankans að Lífeyrissjóði bankamanna.

Viðmælandi Viðskiptablaðsins telur það skjóta skökku við að Seðlabankinn veiti starfsmönnum sínum undanþágu sem gengur í berhögg við samþykktir eftirlitsskylds aðila. Jafnframt furðaði hann sig á því að Seðlabankinn skipaði áfram stjórnarmann í stjórn Lífeyrissjóðs bankamanna en sinnti nú einnig eftirliti hjá sjóðnum. Þetta kynni að valda hagsmunaárekstrum.

Hópurinn telur þó að það kunni að vera óæskilegt að afnema skylduna án þess að annað komi til um leið. Sjóðfélagar eigi réttindi í sjóðnum og vilja ekki hlaupa frá sjóðnum án þess að verja réttindi sín sem verða eftir. Því telja þeir mikilvægt að opna Lífeyrissjóð bankamanna fyrir öðrum sjóðfélögum eða sameina sjóðinn öðrum lífeyrissjóðum.

Lágt kostnaðarhlutfall og tryggingafræðileg staða orðin jákvæð

Tryggvi Tryggvason, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs bankmanna, segir að fækkun greiðandi sjóðfélaga síðustu ár hafi ekki haft veruleg áhrif á rekstur sjóðsins. Kostnaðarhlutfallið hafi haldist lágt og er lægra en hjá mörgum stærri lífeyrissjóðum.

Hann segir einnig ánægjulegt að fækkun greiðandi sjóðfélaga hafi verið heldur minni en fækkun starfsmanna aðildarfyrirtækja. Margir hafi óskað eftir því að greiða áfram í sjóðinn þrátt fyrir að starfa ekki lengur hjá umræddum fyrirtækjum.

Tryggingafræðileg staða Aldursdeildar, sem sjóðfélagar sem byrjuðu að greiða í sjóðinn frá árinu 1998 tilheyra, hefur verið neikvæð á síðustu árum en farið batnandi samhliða góðri raunávöxtun. Hjá Aldursdeildinni námu heildarskuldbindingar 4,1% umfram heildareignir í árslok 2020. Tryggingafræðilega staðan batnaði um 6 prósentustig í fyrra og var jákvæð um 1,8% í lok árs samkvæmt nýlegri úttekt að sögn Tryggva. Breytingin skýrist af 11% hreinni raunávöxtun.

Tryggvi bendir jafnframt á að Aldursdeildin hafi aldrei skert réttindi frá því að hún var stofnuð fyrir hartnær 24 árum á meðan flest allir sjóðir hafi þurft að skerða réttindi í kjölfar hrunsins.

Varðandi óánægju með skylduaðildina, segir Tryggvi að sú umræða hafi lengi verið viðloðandi sjóðinn en hann upplifi hins vegar ekki almenna óánægju með fyrirkomulagið.

Fjallað er um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er: