Landeldisfyrirtækið LAXEY, áður Icelandic Land Farmed Salmon, í Vestmannaeyjum hefur lokið hlutafjáraukningu að andvirði 6 milljarða króna til íslenskra fjárfesta.

Í tilkynningu segir að LAXEY hafi hafið uppbyggingu á fiskeldisstöð í Vestmannaeyjum, annars vegar seiðaeldisstöð í Friðarhöfn og hins vegar áframeldisstöð í Viðlagafjöru. Gert er ráð fyrir að áframeldisstöðin muni framleiða um 32.000 tonn af laxi árið 2031, en nú eru framleidd á Íslandi um tvö þúsund tonn af landeldislaxi.

Áframeldisstöðin verður byggð í sex jafnstórum áföngum, en stefnt er að því að fyrsti áfangi verði tilbúinn um mitt ár 2024 og að fyrsta slátrun fari fram síðla árs 2025. Fyrsti áfangi verður einn og sér rekstrarlega sjálfbær en hver viðbótaráfangi mun auka hagkvæmni framleiðslunnar, með lægri fjárfestingarútgjöldum og rekstrarkostnaði á hvert framleitt kíló af laxi.

Notast er við endurnýtingarkerfi á vatni í áframeldi, þar sem um 65% af sjónum eru endurnýtt en 35% eru freskur jarðsjór sem dælt er upp úr borholum á svæðinu.

„Mikil áhersla hefur verið lögð á að vanda allan undirbúning og ítarlegt mat hefur verið unnið á umhverfisáhrifum verkefnisins. Matið hefur verið kynnt ítarlega fyrir hlutaðeigandi aðilum í Vestmannaeyjum og hlotið góðar viðtökur. Sveitarfélagið hefur sýnt verkefninu mikinn stuðning enda um mikilvæga atvinnuuppbyggingu að ræða. Þannig munu yfir 100 manns starfa hjá fyrirtækinu þegar það hefur náð fullri framleiðslugetu, auk fjölda afleiddra starfa allan ársins hring,“ segir jafnframt í tilkynningu.