Uber hefur verið kært á ný af rúmlega 11 þúsund leigubílstjórum í London en þeir segja að leigubílaþjónustan hafi blekkt umferðarráðuneyti borgarinnar um það hvernig smáforrit fyrirtækisins virkaði.

Dómsmálafyrirtækið RGL Management segir að virði kröfunnar sé um 250 milljónir punda, þar sem hver leigubílstjóri gæti hugsanlega fengið 25 þúsund pund hver.

Uber gefur lítið fyrir þessar fullyrðingar og segir þær gjörsamlega röklausar. „Uber hefur starfað löglega í London, með fullt leyfi frá umferðarráðuneytinu og er stolt af því að þjóna milljónum farþega og ökumanna víðs vegar um höfuðborgina,“ segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Málsóknin beinist gegn starfsemi Uber í London frá maí 2012 til mars 2018 og er þjónustan sökuð um að stela viðskiptavinum frá leigubílstjórum sem keyra frægu svörtu leigubílana, sem eru meðal annars eitt af kennileitum borgarinnar.

Í gegnum árin hefur Uber staðið frammi fyrir ýmsum ásökunum frá leigubílstjórum um allan heim, ekki aðeins í London. Fyrirtækið þurfti meðal annars fyrr á þessu ári að greiða 177,7 milljónir dala til að leysa mál í Ástralíu.