Íslenska þjóðin mun eldast á næstu áratugum, sem gerir það að verkum að sífellt fleiri munu standa utan vinnumarkaðar og færri undir samneyslunni. Lausnin er ekki fólgin í flatri aðhaldskröfu en með slíkri kröfu skapast hætta á að aurinn sé sparaður og krónunni kastað. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í skýrslu Viðskiptaráðs, sem fjallað verður um á Viðskiptaþingi sem hefst í dag.

Viðskiptaráð kallar því eftir breyttum áherslum og telur tímabært að hlutverk hins opinbera sé endurhugsað. Ráðabreytni veldur oft lukkubreytni.

Með grundvallarbreytingum er átt við að verkefni hins opinbera séu endurskoðuð, hvernig þeim er sinnt og hver gerir það. Í mörgum tilfellum er ríki eða sveitarfélög einu aðilarnir sem veita þjónustuna og gera einkaaðilum nær ómögulegt að starfa á viðkomandi mörkuðum.

Taka má dæmi um heilbrigðisþjónustu en það er málaflokkur sem tímabært er að endurskipuleggja. Árið 2022 voru heildarútgjöld í málaflokkinn samtals 352 milljarðar en meirihluta þjónustunnar veita ríki og sveitarfélög án nokkurrar samkeppni. Á þeim mörkuðum heilbrigðisþjónustu sem þeir mega starfa hefur einkaaðilum gagngert verið gert erfitt fyrir að fóta sig. Það hefur þó ekki stöðvað  þá umbótakrafta sem leysast úr læðingi með einkaframtakinu.

Fjórar á móti fimmtán

Einkareknar heilsugæslur njóta meira trausts og er ánægja með þær almennt meiri en þær sem reknar eru af opinberum aðilum, miðað við þjónustukannanir á meðal íbúa höfuðborgarsvæðisins. Þar eru þær eru einungis fjórar á móti fimmtán í opinberum rekstri.

Einkareknu stöðvarnar hafa einnig átt auðveldara með mönnun og gefur það til kynna að bæði þeir sem fá og veita þjónustu séu ánægðari undir fyrirkomulagi einkareksturs. [1] Hvort sem um er að ræða einkarekstur eða opinberan er þjónusta heilsugæslunnar í báðum tilfellum fjármögnuð með almannafé.

Í ljósi þeirra áskorana sem við stöndum frammi fyrir í heilbrigðis-, umönnunar- og öldrunarþjónustu vegna öldrunar þjóðarinnar telur Viðskiptaráð nauðsynlegt að stíga stærri skref sem liðka fyrir aðkomu einkaaðila og tryggja að bætt þjónusta skili sér til neytenda með hagkvæmum hætti. Það verður ekki gert í skjóli fákeppni í boði hins opinbera.

[1] Sjá ummæli stjórnarformanns Heilsugæslunnar á Höfða í Dagmálum, september 2022.

Höfundur greinarinnar er Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs.

Fjallað eru um málið í sérblaðinu Viðskiptaþing, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Hægt er að lesa greinina í heild hér.