Greiningar­deild Lands­bankans spáir því að ís­lenska krónan muni styrkjast smám saman á næstu tveimur árum sam­kvæmt hag­spá bankans til ársins 2026.

Að mati bankans eru horfur í utan­ríkis­við­skiptum nokkuð góðar og er búist við lítils háttar af­gangi af við­skiptum við út­lönd.

„Á­fram stefnir í nokkurn vaxta­mun við út­lönd sem styður við gengi krónunnar og í því sam­hengi má benda á aukinn á­huga er­lendra aðila á ís­lenskum ríkis­skulda­bréfum. Markaðs­aðilar eru al­mennt bjart­sýnir á gengi krónunnar sem sést meðal annars í stöðu fram­virkra samninga með gjald­eyri. Hugsan­lega er þegar búið að verð­leggja þessa á­hrifa­þætti inn í gengið. Eins og alltaf má búast við þó nokkrum gengis­sveiflum innan árs og jafn­vel innan mánaða á spá­tíma­bilinu,” segir í hag­spá Lands­bankans.

Hag­spá bankans gerir jafn­framt ráð fyrir að raun­gengi krónu hækki á spá­tíma­bilinu ef spáin gengur eftir verður raun­gengið 2026 svipað og það var þegar það var hvað hæst á síðasta upp­gangs­tíma ferða­þjónustunnar árið 2017.

„Gangi gengis­spáin eftir verður nafn­gengi í ár svipað að meðal­tali og í fyrra, þrátt fyrir styrkingu það sem eftir er árs. Hækkun raun­gengisins á þessu ári verður ein­göngu vegna þess að verð­bólga er meiri hér en í helstu við­skipta­löndum okkar. Á næstu tveimur árum hækkar raun­gengið svo á­fram, aðal­lega vegna hlut­falls­lega mikillar verð­bólgu hér á landi en þó einnig vegna sterkara nafn­gengis,” segir í hag­spá bankans.

Þetta þýðir til dæmis að evrópskur ferða­maður fær færri krónur fyrir hverja evru og einnig minna magn af vörum og þjónustu hér á landi fyrir hverja krónu.