Þótt laxeldisfyrirtækið Arnarlax hafi sem stendur engin áform uppi um að hefja eldisstarfsemi annarsstaðar en á Vestfjörðum – þar sem það sér fram á að framleiða um 20 þúsund tonn af laxi á næsta ári – er það opið fyrir öllum vaxtarmöguleikum að sögn Björns Hembre framkvæmdastjóra. Félagið tilkynnti á fimmtudagsmorgun að það hyggði á skráningu á First North markað Kauphallarinnar í haust.

„Við viljum sjá fyrirtækið vaxa,“ segir Björn og tekur léttur undir þá lýsingu sem blaðamaður leggur fyrir hann, að félagið sé tilbúið að elta leyfin hvar sem þau verði. Björn bendir ennfremur á að þrátt fyrir að vera sjókvíareldisfyrirtæki sé Arnarlax einnig með umfangsmestu fyrirtækjum á sviði landeldis í dag.

Engin ákvörðun hefur enn verið tekin um hvort Arnarlax hyggist hasla sér frekari völl á sviði landeldis, en Björn segir þekkinguna vissulega vera til staðar innan fyrirtækisins, og að Stjórnendur nálgist viðfangsefnið með opnum hug.

Kæmi einnig til greina að færa út kvíarnar

Einnig kæmi til greina að fara í þveröfuga átt, ekki upp á land heldur út á rúmsjó. Svokallað úthafseldi var eitt af því sem ráðgjafafyrirtækið Boston Consulting group skoðaði í úttekt sinni á stöðu og framtíð lagareldis á Íslandi sem unnin var fyrir matvælaráðuneytið og kynnt síðastliðinn febrúar. Niðurstaðan var í stuttu máli sú að úthafseldi gæti orðið öflug grein hér á landi.

„Hví ekki? Það mun taka tíma, já, en sem eitt af leiðandi fiskeldisfyrirtækjum hér á landi erum við þegar í sterkri stöðu til þess að marka okkur sess á þessu sviði þegar fram líða stundir,“ segir Björn og nefnir sérstaklega möguleikann á samstarfi við fyrirtæki sem þegar hafi reynslu og þekkingu á úthafseldi.

Nánar er rætt við Björn í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út í gærmorgun.