Bandarísk yfirvöld hafa afturkallað leyfi nokkurra bandarískra fyrirtækja sem heimilaði þeim að flytja út tilteknar vörur til kínverska tæknifyrirtækisins Huawei.

Viðskiptaráðuneytið þar nefndi ekki hvaða leyfi voru felld úr gildi en ákvörðunin kemur í kjölfar þess að Huawei gaf nýlega út gervigreindartölvu sem knúin er af flís sem er búin til af Intel.

Örflöguframleiðandinn hefur ekki viljað tjá sig um málið en bandarísk stjórnvöld hafa takmarkað tækniútflutning til Kína síðan 2019 vegna gruns um meint tengsl við kínverska herinn.

Það ár var Huawei sett á sérstakan lista sem þýddi að bandarísk fyrirtæki þyrftu að fá leyfi frá stjórnvöldum til að flytja út tækni sem myndi enda í höndum fyrirtækisins.

Nokkrir bandarískir þingmenn hafa gagnrýnt Joe Biden forseta eftir að MateBook X Pro-fartölvan frá Huawei kom á markað í síðasta mánuði. Þingkonan Elise Stefanik segir að ríkisstjórn Biden hafi aðeins tekið þessa ákvörðun vegna þess að Repúblikanar væru með meirihluta.

Bandaríkin hafa sett hömlur á nokkur kínversk tæknifyrirtæki undanfarin ár en spennan milli landanna tveggja heldur áfram að magnast. Fyrr í þessum mánuði voru lög samþykkt í Bandaríkjunum sem gætu bannað smáforritið TikTok og hafa kínversk yfirvöld sakað bandarísk stjórnvöld um efnahagslegt einelti.