Frumvarp að nauðasamningi rækjuvinnslunnar Kampa á Ísafirði hefur verið samþykkt. Kveðið er á um að lánardrottnar sem eiga samningskröfur á hendur félaginu fái 30% af kröfum sínum greiddra, en lágmarksgreiðslur verða þó 200 þúsund krónur. Nauðasamningur Kampa var samþykktur af 94,5% atkvæðismanna og 99,7% kröfufjárhæða.

Félagið fór í greiðslustöðvun í byrjun árs. Jón Guðbjartsson, stjórnarformaður Kampa, sagði við Morgunblaðið í janúar að bókhald félagsins hafi „byggst á skáldskap í allt of langan tíma“ og ársreikningar því ekki gefið rétta mynd af stöðunni.

Sjá einnig: Bókhald Kampa „byggt á skáldskap“

Var annar af tveimur verklegum stjórnendum talinn hafa staðið þar að baki og var honum sagt upp störfum og vísað úr stjórn félagsins. Kampi kærði athæfi starfsmannsins fyrrverandi til lögreglunnar.

„Annar verklegra stjórnenda fyrirtækisins gerði skandal sem við vissum ekki um. Ég ætla ekki nánar út í það. Nú er farin af stað vinna við það að bjarga fyrirtækinu,“ hafði Morgunblaðið eftir Jóni í lok janúar.

Kampi skilað ekki inn ársreikningi vegna ársins 2019 en hefur skilað inn ársreikningi fyrir 2020 sem á eftir að opna fyrir á heimasíðu Skattsins. Samkvæmt síðasta samþykkta ársreikningi félagsins fyrir árið 2018 námu tekjur félagsins 2,9 milljörðum króna árið 2018 en 2 milljörðum króna árið 2017. Bókfærður hagnaður nam 86 milljónum árið 2018 en bókfært tap var 95 milljónir króna árið 2017. Í árslok 2018 voru eignir félagsins bókfærðar á 1,43 milljarða króna og eigið fé á 164 milljónir króna. Skuldir voru færðar á 1,27 milljarða, þar af voru skuldir við lánastofnanir um 111 milljónir króna.