Úrvalsvísitalan hækkaði lítillega í 2,6 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Mesta veltan var með hlutabréf Marels sem hækkaði um 0,4% í 365 milljóna viðskiptum. Gengi félagsins stendur nú í 570 krónum.

Fasteignafélagið Reginn hækkaði mest af félögum Kauphallarinnar eða um 3,2% í 346 milljóna veltu. Halldór Benjamín Þorbergsson, verðandi forstjóri félagsins, keypti í dag 0,44% hlut í Regin fyrir 203 milljónir króna á genginu 25,4 krónur á hlut. Við lokun Kauphallarinnar stóð gengi Regins í 26,2 krónum.

Hlutabréfaverð Nova hækkaði um 1,9% í 42 milljóna viðskiptum í dag og hefur nú hækkað alls um 10,6% frá aðalfundi félagsins sem fór fram á miðvikudaginn. Gengi Nova stendur nú í 4,28 krónum og var síðast hærra í janúar. Á aðalfundinum var ný stjórn kjörin og komu þrír einstaklingar nýir í inn stjórnina. Athygli vakti að sitjandi stjórnarformaðurinn Hugh Short var ekki endurkjörinn.

Hlutabréf Símans hækkuðu einnig um 2,6% í 240 milljóna veltu. Gengi fjarskiptafélagsins stendur nú í 11,7 krónum eftir meira en 8% hækkun frá byrjun síðustu viku.

Hlutabréf sjö félaga á aðalmarkaðnum lækkuðu um meira en 1% í viðskiptum dagsins. Icelandair lækkaði mest af þeim eða um 2,3% í 72 milljóna veltu. Gengi flugfélagsins stendur nú í 1,92 krónum á hlut.