Danska lyfja­fyrir­tækið Novo Nor­disk varð verð­mætasta fyrir­tæki Evrópu í síðasta mánuði. Lyfja­fyrir­tækið tók titilinn af frönsku lúxus­sam­steypunni LVMH sem varð verð­mætasta fyrir­tæki Evrópu þegar það tók fram úr Nest­lé árið 2021.

Öll þrjú fyrir­tækin eru risar á evrópskum markaði en Novo Nor­disk er nú komið í al­gjöran sér­flokk. Lyfja­fyrir­tækið er nú metið á 59 þúsund milljarða ís­lenskra króna og kostar einn hlutur 13.479 krónur miðað við dagsloka­gengið í gær.

Að mati The Wall Street Journal getur verð­matið hins vegar verið vanda­mál þar sem fé­lagið er skráð í Kaup­höllina í Kaup­manna­höfn.

Heildar­verð­mat allra fyrir­tækjanna í dönsku úr­vals­vísi­tölunnar OMXC 25 er 750 milljarðar dalir en verð­mat Novo Nor­disk eitt og sér er 430 milljarðar.

Danskir sjóðstjórar neyddir til að selja

Að mati WSJ býr þetta til haus­verk fyrir fjár­festa en fáir fjár­festinga­sjóðir vilja sjaldnast vera með en 10% af eignasafni sínu í einu hlutabréfi, jafn­vel þótt slíkt sé leyfi­legt.

Evrópskt reglu­verk aftur á móti bannar verð­bréfa­sjóðum að eiga meira en 10% í einu fé­lagi.

Er­lendir fjár­festar græða hins egar á þessu þar semað danskir sjóð­stjórar hafa verið til­neyddir til að selja mikið af bréfum í Novo Nor­disk. Í hvert skipti sem virði þeirra hækkar og verður meira en 10% af heildareignum sjóðsins þurfa þeir að selja.

Þess vegna kemur Eli Lilly, helsti keppi­nautur Novo Nor­disk á megrunar­lyfs­markaðnum, betur út í V/H saman­burði sem ber saman markaðs­verð­mæti fyrir­tækis (V) og hagnað (H).

Eli Lilly er skráð á markað í Kaup­höllinni í New York þar sem App­le er verð­mætasta fyrir­tækið en virði App­le er þó að­eins 7% af S&P 500 vísi­tölunni.

Jesper Neerga­ard Poll, fram­kvæmda­stjóri eigna­stýringar hjá Danske Bank, segir þó í sam­tali við The Wall Street Journal að Eli Lilly sé einnig með Alz­heimer-lyf á markaði sem er að skila miklum hagnaði en ekki Novo Nor­disk svo dæmi séu tekin.

Þá sé banda­ríski markaðurinn dug­legri að blása upp verð­mæti fyrir­tækja í fjöl­miðlum á meðan evrópskir miðlar séu ögn hóf­samari.