Á Egilsstöðum er að finna fyrirtækið Sauðagull, sem nýtir sauðamjólk til að framleiða ost, konfekt og nú síðast ís sem hefur verið til sölu í matarvagni við Hengifoss í sumar. Ann- Marie Schlutz stofnaði Sauðagull rúmum tveimur árum eftir að hún flutti til Íslands árið 2016.

„Það er sauðfé úti um allt á Íslandi en ég fann hvergi sauðaost í neinni verslun. Þá fór ég að hugsa hvort það væri ekki hægt að framleiða sauðamjólk hérna," segir Ann-Marie, sem rekur fyrirtækið með eiginmanni sínum Gunnari Gunnarssyni.

Hún fór því að læra að búa til ost á Erpsstöðum. Haustið 2018 byrjaði hún að prófa sig áfram með því að handmjólka nokkrar ær ásamt vinkonum og tengdaföður sínum, Gunnari Jónssyni, sem á og rekur Egilsstaðabúið í Fljótsdal. Ann- Marie vann ost úr sauðamjólkinni og fór með hann á jólamarkað til að kanna áhugann meðal Íslendinga. Viðbrögðin voru það góð að hún ákvað að halda áfram með verkefnið. Hún sótti svo um styrki til að kaupa ýmis áhöld og annað fyrir ostagerðina til að auka framleiðslugetuna.

Rúmu ári síðar fór Ann-Marie að hugsa hvort hún gæti nýtt mysuna sem situr eftir í ostagerðinni. Þá datt henni í hug að gera karamellu úr mysunni, sem hún sýður og hjúpar í súkkulaði með eigin höndum. Þetta krefst mikillar vinnu en viðbrögðin við konfektinu hafa verið góð að hennar sögn. Ann-Marie kveðst stolt að nota eingöngu fersk og náttúruleg efni í súkkulaðið.

Matarvagn við Hengifoss

Fyrr í sumar byrjaði hún með matarvagn við Hengifoss sem verður opinn út ágústmánuð. Þar selur Ann-Marie ís sem hún framleiðir einnig úr sauðamjólkinni. Ísinn er fáanlegur í tveimur bragðtegundum, annars vegar með rabarbara- og hins vegar bláberjabragði. Hún notar aðferðir sem hún lærði á námskeiði í Þýskalandi.

„Mér finnst svo spennandi við ísinn að mun fleiri eru tilbúnir að smakka hann heldur en ostinn. Það á helst við um krakkana," segir Ann-Marie og bætir við að þeir séu bestu gagnrýnendurnir. „Ef börnum finnst eitthvað gott veistu að þú ert með góða vöru í höndunum."

Hún segir að það hafi lengi verið draumur hjá sér að reka kaffihús og lítur á matarvagninn sem góða leið til að byrja smátt. Þar að auki hafi enginn selt veitingar við Hengifoss, sem hún leit á sem kjörið tækifæri. Auk íssins selur hún vöfflur að uppskrift ömmu sinnar, kjötsúpu, grænmetissúpu og drykki.

Öll mjólkin í Sauðagullsvörunum kemur frá framangreindu búi hjá tengdaföður hennar, sem er með nærri 400 ær. Þau fengu nýja mjaltavél árið 2019. Sauðagull hlaut svo 1,5 milljóna króna styrk síðasta sumar frá Samfélagssjóði Fljótsdals til að byggja upp heimavinnslu en sú vinna stendur nú yfir. Miðað við framleiðslugetuna í dag er osturinn og konfektið hugsuð sem haust- og jólavörur en ísinn verður seldur yfir sumarið.

„Ég þarf svolítið að hugsa hvernig ég á að nýta þetta takmarkaða magn af mjólk sem ég hef," segir Ann-Marie. Hún vonar þó að Sauðagull og mjólkurframleiðslan geti stækkað hægt og rólega með hverju ári. „Ég tel að staða okkar sé góð. Það er áhugi fyrir þessu og ég tel að þessi viðskiptahugmynd geti þróast þannig að ég lifi á þessu allt árið og hafi jafnvel nokkra starfsmenn í framleiðslu og sölu."

Sauðagull var eitt af tíu verkefnum sem voru valin til þátttöku í viðskiptahraðlinum Til sjávar og sveita í fyrra. Ann-Marie segir að þarna hafi Covid-ástandið komið sér að góðum notum fyrir hana, eins skringilega og það hljómi, en hraðallinn fór fram að stórum hluta í gegnum fjarfundi sem gerði þeim kleift að taka þátt. Hún segir að þátttakan hafi reynst þeim mjög vel, sér í lagi vegna fundi við ýmsa sérfræðinga, þar af marga sem sérhæfi sig í markaðsmálum sem hjálpaði þeim að hugsa stærra.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .