Orkuveitan telur sig ekki lengur þurfa að leggja Ljósleiðaranum til nýtt hlutafé að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar. Ljósleiðarinn, dótturfélag Orkuveitunnar, vinnur þó áfram að undirbúningi hlutafjáraukningar þar sem horft er að fá nýja fjárfesta inn í hluthafahóp fjarskiptainnviðafélagsins.

„Samhliða mun Ljósleiðarinn greina aðra kosti við fjármögnun félagsins til næstu ára,“ segir í tilkynningunni.

Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í mars síðastliðnum samþykkti stjórn Orkuveitunnar að taka sjálf þátt í fyrirhuguðu hlutafjáraukningu Ljósleiðarans ef ekki reynist áhugi meðal fjárfesta að fjárfesta í félaginu. Orkuveitan hafði áður horft til þess að taka ekki sjálf þátt í hlutafjáraukningunni.

Í tilkynningunni sem Ljósleiðarinn sendi frá sér í morgun segir að „það endurmat fjárfestingarþarfar Ljósleiðarans“, sem sagt var frá við samþykkt ársreiknings Ljósleiðarans í lok febrúar, hafi staðfest að félagið búi yfir nægjanlegu handbæru fé til rekstrar á árinu 2024.

„Því mun að óbreyttu ekki koma til þess að Orkuveitan leggi Ljósleiðaranum til aukið hlutafé. […] Aðstæður á fjármagnsmarkaði til útgáfu og sölu nýs hlutafjár hafa ekki verið hagfelldar það sem af er árinu 2024, en áfram er unnið að undirbúningi hlutafjáraukningar í samvinnu við ráðgjafa Ljósleiðarans.“

Tilkynnt var um þessa ákvörðun í ljósi þess að í dag fer fram opinber umræða um ársreikning fyrirtækisins, sem hluta samstæðu Reykjavíkurborgar.

Það endurmat fjárfestingarþarfar Ljósleiðarans sem vísað er í var tilkynnt samhliða ársuppgjöri félagsins. Þá kom fram að Ljósleiðarinn hyggst draga úr fjárfestingum þangað til niðurstaða fæst í hlutafjáraukningu félagsins.

Áformin kynnt fyrir nærri tveimur árum

Ljósleiðarinn tilkynnti sumarið 2022 um að félagið hygðist sækja nýtt hlutafé, m.a. til að fjármagna nýjan landshring fjarskipta og bæta fjármagnsskipan félagsins. Í október 2022 var fyrirhugaða hlutafjáraukningin samþykkt á hluthafafundi Ljósleiðarans með fyrirvara um staðfestingu eigenda, einkum Reykjavíkurborgar.

Stefnt var að ljúka hlutafjáraukningunni fyrir lok fyrsta ársfjórðungs 2023. Endanlegt samþykki eigenda OR fékkst þó ekki fyrr en í byrjun maí 2023 og var þá samþykkt að auka hlutafé um sem nemur allt að þriðjungi af heildarhlutafé eftir útgáfu nýs hlutafjár.

Ferlið hefur þó tafist talsvert og varð það til þess að stjórn Orkuveitunnar samþykkti fyrr í ár að taka þátt í hlutafjáraukningu Ljósleiðarans, ef ekki reynist áhugi meðal fjárfesta að kaupa hlut í félaginu.

Orkuveitan er í 93,5% eigu Reykjavíkurborgar, 5,5% eigu Akraneskaupstaðar og 0,9% eigu Borgarbyggðar.