Össur hagnaðist um 66 milljónir dala eða um 8,3 milljarða íslenskra króna á síðasta ári sem samsvarar um 9% af veltu. Til samanburðar hagnaðist fyrirtækið um 1 milljarð króna árið 2020. Hagnaður Össurar á fjórða ársfjórðungi var 18 milljónir dala eða sem nemur 2,3 milljörðum króna.

Sala stoðtækjaframleiðandans nam 719 milljónum dala eða um 91,2 milljörðum króna árið 2021. Um er að ræða 11% söluvöxt í staðbundinni mynt og 10% innri vöxt. Sala á síðasta ársfjórðungi nam 24,4 milljörðum króna en söluvöxtur í staðbundinni mynt á fjórðungnum nam 11% og innri vöxtur var 5%. Innri vöxtur var 11% á stoðtækjum og 8% á spelkum og stuðningsvörum á árinu. Innri vöxtur var 6% á stoðtækjum og 3% á spelkum og stuðningsvörum á fjórða ársfjórðungi.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) nam 18,9 milljörðum króna eða 21% af veltu sem er samkvæmt væntingum fyrir árið 2021, að því er kemur fram í tilkynningu. EBITDA-hagnaður fyrirtækisins nam 5,3 milljörðum króna eða 22% af veltu á fjórða ársfjórðungi 2021.

Handbært fé frá rekstri nam 16,3 milljörðum króna eða 18% af veltu árið 2021 og nam 39 5,1 milljarði króna á fjórða ársfjórðungi eða 21% af sölu í fjórðungnum.

Félagið hefur ákveðið að hefja aftur endurkaup á eigin bréfum en samhliða hefur stefna Össurar um fjármagnsskipan og arðgreiðslur verið breytt og mun félagið leggja áherslu á kaup á eigin bréfum.

Hóf starfsemi í sjö löndum

Össur, sem fagnaði 50 ára afmæli í fyrra, hélt áfram að fjárfesta í innviðum á nýjum mörkuðum og hóf starfsemi í sjö löndum Austur Evrópu á liðnu ári. Össur er nú með starfsstöðvar í 35 löndum.

Á fjórða ársfjórðungi gekk Össur frá kaupum á fyrirtækjum með alls 4 milljónir Bandaríkjadala eða um 500 milljónir króna í ársveltu.

Fjárhagsáætlun Össurar fyrir árið 2022 gerir ráð um 6-9% innri vexti, um 20-21% EBITDA framlegð að teknu tilliti til einskiptisliða, 3-4% fjárfestingarhlutfalli og virku skatthlutfalli á bilinu 23-24%.

Jón Sigurðsson, fráfarandi forstjóri Össurar:

„Niðurstöður fjórða ársfjórðungs voru góðar og sérstaklega góður söluvöxtur var á mörkuðum í Evrópu og Asíu. Söluvöxtur á stoðtækjum var góður á öllum mörkuðum, einnig söluvöxtur á hátækni stoðtækjum sem hafa orðið fyrir meiri áhrifum af COVID-19 síðastliðna ársfjórðunga en önnur stoðtæki. Þetta staðfestir þá trú okkar að eftirspurn eftir okkar háþróuðu vörum hefur ekki breyst.

Við fögnuðum 50 ára afmæli Össurar með margvíslegum og eftirminnilegum hætti, með nýjum heimsmetum og Olympíumetum fatlaðra, urðum kolefnishlutlaus, settum nýjar vörur á markað og fengum ýmsar athyglisverðar viðurkenningar.

Eftir að hafa leitt Össur síðastliðin 26 ár, frá litlu stoðtækjafyrirtæki í leiðandi alþjóðlegt heilbrigðistæknifyrirtæki, hef ég óskað eftir að láta af störfum sem forstjóri Össurar frá 1. apríl 2022. Ég mun afhenda Sveini Sölvasyni, fjármálastjóra, keflið og er fullviss um að hann muni leiða fyrirtækið vel inn í næsta vaxtarskeið. Ég þakka starfsfólki Össurar, viðskiptavinum okkar og notendum auk annarra velunnara félagsins sem öll hafa átt þátt í velgengni Össurar.“