*

þriðjudagur, 14. júlí 2020
Innlent 6. júní 2020 10:02

Reyna mun á greiðsluskjól fyrir dómi

Algjör óþarfi er að veita ólífvænlegum fyrirtækjum gálgafrest heldur réttara að keyra þau strax í þrot að mati lögmannsstofu.

Jóhann Óli Eiðsson
Frumvarpinu er meðal annars ætlað að koma ferðaþjónustufyrirtækjum fyrir vind.
Haraldur Guðjónsson

Umsagnaraðilar um frumvarp til laga um heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar atvinnufyrirtækja telja margir hverjir að hluti frumvarpsins höggvi ansi nærri eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Fyrirséð sé að talsvert muni reyna á lögin fyrir dómstólum sem sé bagalegt í ljósi markmiða þess.

Umrætt frumvarp er liður í aðgerðum stjórnvalda til að bregðast við efnahagslegum áhrifum veirufaraldursins og er það tvíþætt. Annars vegar felur það í sér setningu nýrrar tímabundinnar heimildar til fjárhagslegrar endurskipulagningar fyrirtækja en hins vegar er um að ræða varanlegar breytingar á gjaldþrotaskiptalögum. Síðarnefnda breytingin felur í sér að með nauðasamningi megi kveða á um breytingu á greiðsluskilmálum samningsveðkrafna, þar á meðal að lengja lánstíma, fresta gjalddaga hluta skuldarinnar eða henni allri í allt að þrjú ár.

Frumvarpinu er ætlað að veita félögum, sem hafa að minnsta kosti einn starfsmann á launaskrá, kost á að komast í skjól til að endurskipuleggja rekstur sinn. Til að eiga kost á úrræðinu þarf félag að hafa orðið fyrir að minnsta kosti 75% tekjufalli á tilteknu tímabili og fyrirséð sé að handbært reiðufé og kröfur á hendur öðrum nái ekki að dekka áætlaðan rekstrarkostnað og afborganir skulda næstu tveggja mánaða. Beiðni um nýtingu úrræðisins skal beint til héraðsdómara og samkvæmt frumvarpinu tekur úrræðið gildi strax frá þeim degi er beiðni er send. Á meðan beiðni er til meðferðar er óheimilt að taka félag til gjaldþrotaskipta.

Gálgafrestur ólífvænlegra óþarfi

Mælt var fyrir frumvarpinu um miðjan síðasta mánuð og í kjölfarið fékk allsherjar- og menntamálanefnd þingsins það til meðferðar. Miðað við þær umsagnir sem nefndinni hafa borist er viðbúið að það verði talsvert breytt er önnur umræða um það hefst. Meðal þess sem sett er út á er það fyrirkomulag að félög komist í skjól um leið og beiðni hefur verið send af stað.

„Vakin er sérstök athygli á því að fjárhagsleg endurskipulagning ætti ekki að standa til boða hvaða skuldara sem er, aðeins fyrirtækjum sem eru raunverulega rekstrarhæf. Engin ástæða er til að tefja gjaldþrotaskipti á ólífvænlegum atvinnufyrirtækjum. […] Ef skuldari hefur frjálsar hendur til þess að nýta sér aðgengi að málsmeðferð til fjárhagslegrar endurskipulagningar getur það gert það að verkum að þegar hefðbundin gjaldþrotaskipti loks hefjast, þá kunna verðmæti þrotabúsins að hafa rýrnað verulega,“ segir í umsögn lögmannsstofunnar Advel.

Í umsögn Hagsmunahóps fasteignafélaga innan Samtaka verslunar og þjónustu er bent á að frumvarpið virðist nokkuð einfaldara en staðan sé í raun og veru. Vissulega sjáist úr flugvél að staða ferðaþjónustufyrirtækja sé afar bágborin um þessar mundir en í frumvarpinu sé skollaeyrum skellt við stöðu viðsemjenda ferðaþjónustufyrirtækja.

„Ferðaþjónustufyrirtæki eru hlekkur í virðiskeðju þar sem fjármunaflæði hefur verið að mestu tiltölulega stöðugt. Er þannig ekki litið til þess að viðsemjendurnir hafa ráðist í fjárfestingar og tekjur sem þeim berast standa undir afborgunum af fjármögnunarlánum og öðrum fjármögnunar- og rekstrarkostnaði. Verði viðsemjendurnir settir í þá stöðu að tekjur þeirra falli tímabundið niður samhliða tekjufalli í ferðaþjónustu eða virði krafna þeirra fært niður hefur vandanum í raun verið velt yfir á viðsemjendurna,“ segir í umsögn hópsins. Einnig er á það bent að enn muni hvíla skylda á leigusölum til að skila útskatti vegna útgefinna reikninga óháð því hvort þeir hafi innheimst eður ei.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér