Aðkoma ríkis og sveitarfélaga takmarkast ekki einungis við verkefni sem ríkir samfélagsleg sátt um að séu í þeirra höndum. Ríkið er til að mynda stærsti atvinnurekandinn á Íslandi ef miðað er við starfsmannafjölda og starfa tæplega 6.500 manns hjá fyrirtækjum í opinberum rekstri. Sjöundi hver ríkisstarfsmaður starfar því í rekstri sem einkaaðilar gætu sinnt með einum eða öðrum hætti.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í skýrslunni „Má aðstoða hið opinbera" sem Viðskiptaráð kynnti á Viðskiptaþingi í gær.

Viðskiptaráð hvetur því stjórnvöld til að rýna vel þá markaði sem það starfar á og beita sér fyrir því að skapa hagfellda umgjörð með regluverki eða fjármögnun, þannig að einkaaðilar geti keppt þar sín á milli.

Skilvirkni hins opinbera situr eftir

Starfandi á almennum vinnumarkaði hefur fjölgað um tæp 30% frá aldamótum á sama tíma og landsframleiðsla hefur tæplega tvöfaldast að raunvirði, eða aukist um 1.850 milljarða á föstu verðlagi. Með öðrum orðum hefur einkageiranum tekist að auka framleiðni og skapa meiri verðmæti á hverja vinnustund. Aftur á móti hefur starfandi hjá hinu opinbera fjölgað um 60% yfir sama tímabil.

Starfsfólki ráðuneyta hefur fjölgað hratt á undanförnum árum. Frá  2019 – 2023 fjölgaði starfsmönnum innan stjórnarráðsins um rúmlega 30%. Starfsmenn voru 552 árið 2019 en eru nú 724. Til að allrar sanngirni sé gætt mætti segja að fjölgun miðaði að því að auka gæði lagasetningar og regluverks sem legði þannig grundvöll að aukinni verðmætasköpun í samfélaginu. Sambandið þar á milli er aftur á móti ekki svo skýrt.

Úttekt á samkeppnishæfni ríkja sýnir okkur að skilvirkni regluverksins mælist minni hér en á Norðurlöndunum. Þróunin gefur til kynna að skilvirknin hafi batnað verulega á árunum 2013 – 2017 og vekur athygli Viðskiptaráðs að fjöldi starfandi við stjórnsýslu fækkaði hratt á því tímabili. Í dag mælist samkeppnishæfni regluverks álíka og árið 2017 en síðan þá hefur starfsmönnum stjórnarráðsins fjölgað um 40%. Það gefur vísbendingu um að rekja megi skilvirkt regluverk til annarra þátta en fjölda embættismanna. Þess vegna er hægt vel hægt að ná auknum árangri samhliða hagræðingu.

Höfundur greinarinnar er Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs.

Fjallað eru um málið í sérblaðinu Viðskiptaþing, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Hægt er að lesa greinina í heild hér.