Fé­lags­menn í Fé­lagi flug­mála­starfs­manna ríkisins (FFR) og Sam­eykis, stéttar­fé­lags í al­manna­þjónustu sam­þykktu í há­deginu verk­falls­að­gerðir sem hafa verið boðaðar á mánu­daginn.

Sam­kvæmt til­kynningu á vef­síðu FFR greiddu 89,87% fé­lags­manna með til­lögunni. Á kjör­skrá voru 494 og greiddu alls 377 at­kvæði og var kjör­sókn því 76,1%.

Á fimmtu­daginn í næstu viku hefst klukkan 16 ó­tíma­bundið yfir­vinnu­bann hjá fé­lags­mönnum Sam­eykis og FFR sem starfa hjá Isavia og dóttur­fé­lögum.

Á vefsíðu FFR segir að samningnefndir FFR og Sameykis ákváðu á fundi 28. apríl að boða til yfirvinnu- og þjálfunarbanns ásamt tímabundnum og tímasettum aðgerðum við öryggisleit og farþegaflutninga eftir að samtöl stéttarfélaganna við Samtök atvinnulífsins fyrir hönd ISAVIA ohf. reyndust árangurslaus.

Samningaviðræður hafa staðið síðan í september 2023 og var deilunni vísað til ríkissáttasemjara þann 8. apríl sl.