Fiskikóngurinn Kristján Berg Ásgeirsson, eigandi Heitirpottar.is, segist undanfarið hafa séð mikla aukningu í sölu á rafmagns- og saltvatnspottum. Hann segist einnig ánægður með að vera með stærstu pottabúð í heiminum miðað við úrval.

„Salan var mjög góð í Covid, en ég var pínu hissa á hversu mikið salan á hitaveituskeljunum hefur hrunið. Við erum á samt á pari við söluna í fyrra með sölu á rafmagns- og saltvatnspottum.“

Kristján vitnar í umræðu fjölmiðla og segir að fólk hafi verið hvatt til að fara ekki í sund og ekki að láta renna í pottinn sökum heitavatnsskorts. „Íslendingar eru soldið eins og góð stýranleg hjörð.“

Að sögn viðskiptavina þá hefur kostnaðurinn á heita vatninu einnig hækkað og bendir Kristján á að rafmagnspottarnir sem hann fær frá Arctic Spa eyða minna rafmagni en heitavatnspottarnir. Meðalfjölskylda notar til að mynda tvö og hálft tonn af heitu vatni við hverja pottanotkun, miðað við 30-60 mínútur veru í pottinum. Sá kostnaður er í kringum 5-6 þúsund krónur á mánuði.

Aftur á móti er rafmagnskostnaðurinn við sömu notkun rúmlega fimm kílóvott á dag. Það jafngildir rúmlega 3.000 krónum á mánuði og líkir Kristján þeim mánaðarkostnaði við að kaupa sér eina pizzu. „Svo kostar núna 1.200 krónur í sund á haus,“ bætir Kristján við.

Hann segir heitan pott vera rosalega góða fjárfestingu fyrir heilsuna, sérstaklega núna í skammdeginu. Þar að auki getur fólk farið í pottinn allan sólarhringinn, hvenær sem það vill.

Hann segir pottinn sameina fjölskylduna og að það þurfi ekki alltaf að kaupa iPad eða fara til útlanda til að gleðja fjölskylduna. Það sé heldur ekki hægt að koma úr pottinum í vondu skapi.

„Þetta er rosalega jákvætt fyrir geðheilsuna. Ég var að hlusta á Þorgrím Þráinsson um daginn og við erum núna farin að auglýsa pottana þannig að fólk er hvatt til að sleppa símanum og fara saman í pottinn og spyrja hvort annað hvernig dagurinn var.“

„Það er svo dýrmætt að borða með fjölskyldunni og fara svo saman út í pottinn. Maður lifir bara einu sinni og maður á að njóta lífsins.“