Orkuveita Reykjavíkur ætlar að sækja 50 milljarða króna í nýtt hlutafé inn í Ljósleiðarann og Carbfix. Þetta kemur fram í fjárhagsspá Orkuveitu Reykjavíkur fyrir árin 2023-2027.

Á tímabilinu er auk þess gert ráð fyrir að ný lántaka nemi um 80 milljörðum króna en á sama tíma verði greidd niður lán um 86 milljarða. Jafnframt muni eigendur OR fá samtals 27,5 milljarða króna greidda í arð.

Í fjárhagsspánni, sem er samandregin fyrir Veitur, Orku náttúrunnar, Ljósleiðarann og Carbfix auk móðurfélagsins, er gert ráð fyrir fjárfestingum á tímabilinu sem nema 184 milljörðum króna. Ástæðurnar séu einkum tvær; stækkun og uppbygging dreifikerfa Veitna vegna nýs íbúðarhúsnæðis og nýrra samgöngumannvirkja á höfuðborgarsvæðinu og bygging förgunarstöðva Carbfix fyrir koldíoxíð úr útblæstri eða andrúmslofti

Áætlað er að Carbfix verji 40 milljörðum á tímabilinu í uppbyggingu förungarstöðva fyrir koldíoxíð og í frekari rannsóknir. Umfangsmest verði þó áform félagsins við Straumsvík, þar sem CODA-verkefnið verður byggt upp og á sala nýs hlutafjár í Carbfix að nýtast í fjármögnun á hluta fjárfestinganna.

Carbfix hlaut styrk í sumar sem nemur 16 milljörðum króna frá Nýsköpunarsjóði ESB til uppbyggingar á mótttöku- og förgunarmiðstöðinni Coda Terminal, Sódastöðinni, í Straumsvík. Í tilkynningu kom fram að miðstöðin verði sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum og áætlað að styrkupphæðin nemi ríflega þriðjungi af kostnaði verkefnisins. Áætlað er að starfsemin hefjist um mitt ár 2026 og nái fullum afköstum árið 2031.