Sala hófst í dag í fyrsta áfanga af fjórum á Orkureitnum svokallaða en um er að ræða 68 íbúðir í sjö hæða húsi við Suðurlandsbraut, vestan við Orkuhúsið. Samkvæmt Hilmari Ágústssyni, framkvæmdastjóra SAFÍR bygginga sem er eigandi og umsjónaraðili Orkureitsins, hafa 25 íbúðir nú þegar selst.

Íbúðirnar 68 verða allar afhentar samtímis næsta haust en stærð þeirra er á bilinu 38-166 fermetrar.

„Við höfum undanfarnar vikur fundið fyrir miklum áhuga á þessu nýja íbúðahverfi sem nú er að rísa á Orkureitnum. Það er gott að finna fyrir meðbyr með verkefninu. Viðskiptavinir okkar kunna vel að meta viðleitni okkar til að byggja vandaðar íbúðir á fallegum reit miðsvæðis þar sem stutt er að sækja annars vegar í verslun og þjónustu og hins vegar í Laugardalinn, sem hefur lengi verið eitt vinsælasta útivistarsvæði borgarbúa,“ segir Hilmar.

Á lóðinni verða byggð íbúðarhús í fjórum áföngum en í heildina telja íbúðirnar 436 talsins. Þá er einnig gert ráð fyrir 4000 m2 atvinnuhúsnæði og á jarðhæð nýju húsanna er gert ráð fyrir verslunar- og þjónusturýmum fyrir íbúa og rekstri á borð við veitingahús og kaffihús.

„Áformað er að afhenda fyrstu íbúðir í áfanga A haustið 2024 og að allri uppbyggingu á svæðinu verði lokið í lok árs 2027,“ segir Hilmar og bætir við að Rut Káradóttir, innanhússarkitekt, muni stýra vali á litum, efni, innréttingum og lýsingu, bæði innan íbúða og í sameiginlegum rýmum.