Í desember var greint frá því að árásir Houthi-skæruliða á flutningaskip við Rauðahaf gætu haft áhrif á verð á olíu og öðrum vörum. Flutningarisar á borð við Maersk tilkynntu að þau myndu senda skip þeirra í kringum Góðrarvonarhöfða í Suður-Afríku sem myndi hafa áhrif á verðlag og flutningstíma.

Fréttamiðillinn BBC greinir nú frá því að fyrirtæki í Bretlandi séu þegar farin að sjá töluverðar hækkanir á sendingarkostnaði og hafa árásirnar einnig tafið vöruafhendingu.

Thomas O‘Brien, eigandi fyrirtækisins Boxer Gifts sem hannar leiki og hátíðlegar gjafir, segir að vörur fyrirtækisins séu framleiddar í Kína og reiðir hann sig því mikið á sendingar. Thomas segir að sendingarkostnaður fyrirtækisins á síðustu tveimur vikum hafi hækkað um 250% og tefur nýja siglingaleiðin vöruafhendingu um 10 til 14 daga.

„Við erum rétt að venjast því að sendingar berist á réttum tíma núna eftir heimsfaraldur. Nú endum við aftur með tveggja eða þriggja vikna töf. Við erum með vörur fyrir Valentínusardaginn sem eru líklega ekki að fara berast fyrir daginn sjálfan,“ segir Thomas.

Þýska skipafyrirtækið Hapag-Lloyd segir að það myndi halda áfram að forðast Rauðahafsleiðina til að minnsta kosti 9. janúar en það sendir að meðaltali 50 skip á mánuði um Súez-skurðinn. MSC og Maersk hafa hætt við að sigla í gegnum Rauðahaf þar til annað kemur í ljós en þau eru tvö stærstu skipafyrirtæki í heimi.

Eigandi Boxer Gifts segir að fjárhagstapið gæti numið fleiri hundruð þúsunda punda, en segir þó að helsta höggið séu vonsviknir viðskiptavinir. „Það skaðar orðspor þitt miklu meira en eitthvað tímabundið fjárhagstap.“