Mediterranean Shipping Company (MSC), stærsta skipaflutningafyrirtæki í heimi, hefur tilkynnt að það muni beina skipum sínum frá Rauðahafi í kjölfar aukinnar hættu á árásum. Tilkynningin kemur einum degi eftir að danska flutningafyrirtækið Maersk og þýska fyrirtækið Hapag-Lloyd tóku svipaða ákvörðun.

Árásirnar hafa undanfarið verið gerðar af Houthi-skæruliðum í Jemen sem studdir eru af Íran en þeir segjast vera að ráðast á skip sem er á leið til Ísrael.

Houthi-samtökin lýstu yfir stuðningi sínum við Hamas eftir að Ísraelar hófu hernaðaraðgerðir sínar á Gaza-svæðinu í kjölfar árásanna 7. október.

Rauðahafið er ein mikilvægasta flutningaleið í heimi fyrir olíuflutninga og hafa skæruliðarnir aukið árásir sínar á erlend skip, meðal annars með drónum og eldflaugum.

Fyrir helgi var ráðist á gámaskipið MSC PLATIUM III er það sigldi í Rauðahafinu. Engin slys urðu á áhöfninni en öll önnur skip á vegum fyrirtækisins voru send um Góðrarvonarhöfða í Suður-Afríku í staðinn.

Vivienne Nunis, viðskiptablaðamaður hjá BBC, segir líklegt að þessi aukni áhafnarkostnaður, eldsneyti og tryggingarkostnaður muni enda á því að koma niður á neytendur.