Gengi hlutabréfa SKEL Fjárfestingafélags (áður Skeljungur) hefur verið á miklu flugi það sem af er viðskiptadegi á Aðalmarkaði Kauphallarinnar. Hefur gengi hlutabréfa félagsins hækkað um 7,02% þegar þetta er skrifað í alls 737 milljóna króna viðskiptum. Stendur gengi bréfa félagsins í kjölfarið í 18,2 krónum á hlut og hefur aldrei mælst hærra.
Í morgun var greint frá því að Ásgeir H. Reykfjörð Gylfason, fráfarandi aðstoðarbankastjóri Arion banka, hafi verið ráðinn forstjóri SKEL Fjárfestingafélags . Á sama tíma var greint frá ráðningu Magnúsar Inga Einarssonar í stöðu fjármálastjóra, en hann hefur gegn stöðu framkvæmdastjóra bankasviðs hjá Kviku.
Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins , sem kom út í morgun, er m.a. fjallað um breyttar áherslur í rekstri félagsins. Breytingarnar fela í sér að færa hefðbundinn rekstur félagsins úr olíusölu yfir í að vera fjárfestingafélag. Prímusmótorinn í þessum breyttu áherslum er eignarhaldsfélagið Strengur, sem er meirihlutaeigandi SKEL Fjárfestingafélags með 50,06% hlut í félaginu.