Solid Clouds hefur ákveðið að ráðast í lokað hlutafjárútboð þar sem tölvuleikjafyrirtækið stefnir að því að sækja allt að 400 milljónir króna en áskilur sér rétt að hækka upp­hæðina upp í 600 milljónir. Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu sem félagið sendi frá sér í gær.

Arion Banki sér um út­boðið sem hófst á mið­viku­daginn síðasta og lýkur á mið­nætti 7. septem­ber næst­komandi. Auglýst er eftir áskrift hæfra fjárfesta í útboðinu.

Út­boðs­gengið er 7 krónur en Solid Clouds sótti sér 725 milljónir króna í frumút­boði í lok júní 2021 á út­boðs­genginu 12,5 krónur.

Eftir út­boðið var markaðs­verð fyrir­tækisins um 2,3 milljarðar króna. Gengi Solid Clouds hefur verið á bilinu 6 til 7,25 krónur síðast­liðinn mánuð.

Félagið, sem er skráð á First North-markaðinn, hefur boðað til hluthafafundar þann 8. september þar sem tillaga um hækkun hlutfjár í tengslum við útboðið verður lögð fram.

Fjármagna markaðsherferð

Í frumút­boðinu bárust alls til­boð að and­virði 2,8 milljarða króna frá rétt tæpum 2.700 til­vonandi fjár­festum en 32% hlutur var boðinn út, að með­taldri stækkunar­heimild sem var full­nýtt í ljósi mikillar eftir­spurnar.

Star­born­e Fronti­ers, nýi tölvu­leikur Solid Clouds, er að­gengi­legur öllum í snjall­for­rita­verslun App­le og Goog­le. Sam­kvæmt kaup­hallar­til­kynningu hafa 60 þúsund ein­staklingar náð í leikinn.

Stefán Gunnars­son for­stjóri Solid Clouds segir að hluta­fjár­aukningunni sem hófst í vikunni sé ætlað að fjár­magna markaðs­her­ferð og rekstrar­kostnað.

Minna tap í ár en í fyrra

Sam­kvæmt upp­gjöri fyrir­tækisins fyrir fyrri hluta árs nam tap fé­lagsins fyrir skatta 62,6 milljónum í saman­burði við 35,5 milljóna tap árið áður.

Tekjur af tölvu­leikja­starf­seminni námu 9,9 milljónum króna sem er 47,7% hækkun frá árinu áður.

Rann­sóknar og þróunar­kostnaður var 174,5 milljónir sem er 3% minna en á tíma­bilinu í fyrra en fé­lagið á von á 128,6 milljóna skatta­af­slætti af rann­sóknar og þróunar­kostnaði.

Eigið fé fé­lagsins var 118,5 við lok tíma­bilsins.