Verðbólga mun mælast 18,6% í Bretlandi í janúar á næsta ári ef spá Citigroup verður að veruleika. Ef spáin rætist verður um að ræða mestu verðbólgu sem mælst hefur í Bretlandi í nærri hálfa öld. FT greinir frá.

Citigroup byggir spá sína aðallega á ört hækkandi gasverði. Goldman Sachs og EY gera einnig ráð fyrir mikilli verðbólgu og telja að hún verði að minnsta kosti 15% í byrjun næsta árs. Þá hefur breski seðlabankinn gefið út að verðbólga fari yfir 13% áður en árið er á enda. Samkvæmt nýjustu mælingum mælist 10,1% verðbólga í Bretlandi.

Eins og fyrr segir nær verðbólga nærri hálfrar aldar hámarki ef spá Citigroup rætist. Í olíukreppunni árið 1979 fór verðbólga upp í 17,8% og hefur ekki náð sömu hæðum síðan.